20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Menntaskólanum á Akureyri var slitið í 144. sinn í dag 17. júní
Menntaskólanum á Akureyri var slitið í 144. sinn í dag 17. júní við hátíðlega athöfn í Íþróttahöllinni. Veðrið lék svo sannarlega við nýstúdentana og fjölskyldur þeirra.
Alls voru 143 stúdentar brautskráðir.
Dúx skólans er Max Forster sem brautskráðist af náttúrufræðibraut með meðaleinkunnina 9,83. Semidúxar voru tvö, þau Magnús Máni Sigurgeirsson og Vilborg Líf Eyjólfsdóttir með 9,57; bæði af raungreina- og tæknibraut. Öll fengu þau fjölda verðlauna og viðurkenninga. Skólinn óskar þeim innilega til hamingju með árangurinn.
Hæst í 1. bekk voru Kjartan Valur Birgisson 1V og Snædís Hanna Jensdóttir 1U með 9,8
Hæstur í 2. bekk var Árni Stefán Friðriksson 2X með 9,7
Hæstur í 3. bekk var Max Forster 3UV með 9,9
Inga Rós Suska söng við upphaf athafnar og í lok athafnar var skólasöngurinn sunginn við undirleik Atla Þórs Guðmundssonar nýstúdents. Forsöngvarar voru kennararnir Anna Eyfjörð, Bjarni Guðmyndsson, Harpa Sveinsdóttir og Valdís B. Þorsteinsdóttir.
Í ræðu sinni fór skólameistari yfir starf skólans í vetur, árangur nemenda og þá óbilandi trú sem hann hefur á ungu fólki. Hann minnti á fjölmargt sem nemendur standa sig vel í, auk námslegs árangurs, s.s. eftirminnilega sýningu LMA á Gosa, sigur MORFÍs liðsins, ólympíufara í námsgreinum, öflugt íþróttafólk og svo mætti áfram telja. Hann sagði að mikilvægast væri að kenna nemendum að læra og verða góðir námsmenn, frekar en að læra fyrir ákveðin störf, og hjálpa þeim að vinna að eigin farsæld. Hann minnti nýstúdenta á að þau gætu gert margt til að rækta eigin heilsu og lagt sitt af mörkum til góðs í heiminum.
Það er löng hefð fyrir því að fulltrúar afmælisárganga komi að brautskráningu og styrkja flest Uglusjóð, hollvinasjóð MA.
Fulltrúi 60 ára stúdenta var Guðmundur Hafsteinn Friðgeirsson
Fulltrúi 50 ára stúdenta var Steinunn H. Hafstað
Fulltrúi 40 ára stúdenta var Unnur Birna Karlsdóttir
Fulltrúi 25 ára stúdenta var Aðalheiður Rósa Jóhannesdóttir. Hún tilkynnti einnig um úthlutanir úr Uglusjóði, til þróunarverkefna kennara og til félagslífs og aðstöðu nemenda
Fulltrúi 10 ára stúdenta var Baldur Þór Finnsson
Krista Sól Guðjónsdóttir flutti ávarp fyrir hönd nýstúdenta, hún var forseti skólafélagsins Hugins sem stýrði félagslífi nemenda í vetur.
Að lokinni athöfn var haldið í MA þar sem myndir af árganginum og einstökum bekkjum voru teknar. Og framundan er svo rúmlega 700 manna veisla í kvöld, nýstúdentanna, fjölskyldna þeirra og starfsfólks skólans í Íþróttahöllinni.