20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Meindýraeyðir gaf út dánarvottorð á rottuna í Hrísey
Fyrir 30 árum síðan útrýmdi Árni Logi Sigurbjörnsson, meindýraeyðir rottum í Hrísey, á Hauganesi og Árskógssandi. Af því tilefni kom hann út í eyju á dögunum og með í för voru hjónin úr Kálfskinni á Árskógsströnd, Sveinn Jónsson og Ása Marínósdóttir.
Sveinn var oddviti Árskógshrepps þegar Árni eyddi öllum rottum úr eynni. Árni Logi kom ekki tómhentur heldur hafði hann meðferðis „dánarvottorð“ rottunnar sem hann hafði rammað inn. Því var komið fyrir á hákarlasafninu í Hrísey, í húsi Hákarla-Jörundar.
„Sveinn vinur minn var búinn að tala um þetta við mig. Hann var búinn að marg minna mig á það hvort ég ætlaði ekki að koma út í Hrísey og gefa út dánarvottorð. Svo var ég að skoða gamlar dagbækur og rak þá augun í að 30 ár eru liðin síðan ég eyddi rottunum í Hrísey. Ég safnaði saman myndum sem ég tók á þessum tíma og útbjó þetta fína dánarvottorð og fannst tilvalið að koma þessu fyrir á Hákarlasafninu,“ segir Árni Logi í samtali við Vikublaðið.
„Sveinn var oddviti á þessum tíma og var allt í öllu. Hann var líka með stórt bú og það var allt fullt af rottum hjá honum í fjósinu. Ég hafði aldrei séð það áður að rotta væri svo skæð að hún nagaði sig í gegnum vatnsheldan krossvið. Þær fóru bara í gegnum hann eins og oststykki,“ segir Árni Logi ennfremur.
Rotturnar sofnuðu á staðnum
Árni Logi var með sérstaka blöndu sem hann notaði á rotturnar og náði þessum góða árangri enda hefur ekki orðið vart við rottu í Hrísey á þessum 30 árum. „Ég hafði efni sem heitir fenemal og var notað til að eyða vargfugli. Svo var það bannað vegna þess að hundar og kettir áttu það til að fara í þetta og varð illt af því. Ég byrjaði bara á að gefa rottunum góðan mat, fann út hvað þeim fannst best og síðan hrærði ég efninu saman við matinn. Það virkaði svo vel að þær sofnuðu bara á staðnum og ég gat tínt þær upp í poka,“ útskýrir Árni Logi.
Það sem rottunum fannst best að éta var kjötsag og hrossamör. „Hrossamörin er svo feit að þegar ég blanda þessu saman með kjötsagi, þá frysti ég þetta í hálfgerðar kökur og bar þetta út allt árið,“ segir Árni Logi og bætir við að starfsmenn sveitarfélaganna hafi borið blönduna út með honum. „Það vildu allir losna við rottuna. Þetta var bara yfirlega og svo þurfti að passa að það væri alltaf nóg efni.“ Árni Logi eyddi ekki aðeins rottum í eyjunni heldur tók hann minkinn í leiðinni. „Það voru þrír minkar í eyjunni, tvær læður og karlminkur. Ég tók aðra læðuna í bogagildru en skaut hina minkana.“