Matjurtagarðar Akureyrar njóta vinsælda
„Það er afskaplega mikilvægt að hafa stað sem þennan í boði fyrir Akureyringa. Stað þar sem hægt er að koma saman og njóta, kynnst náttúrunni og nýju fólki og fræðast,“ segir Heiðrún Sigurðardóttir hjá Ræktunarstöðinni um Matjurtagarða Akureyrar ofan við Gömlu gróðrarstöðina við Krókeyri.
Heiðrún Sigurðardóttir
Rúmlega 300 garðar eru til reiðu fyrir bæjarbúa og þar geta þeir ræktað eigið grænmeti. Saga matjurtagarðanna nær aftur til ársins 2009 en þeir voru settir á laggirnar eftir efnahagshrunið og fóru viðtökur strax fram úr björtustu vonum. Heiðrún segir að einnig hafi mikil uppsveifla orðið í heimsfaraldrinum fyrir fáum árum. „Þetta er nokkuð jafnt og þétt og það er hér fastur kjarni fólks sem hefur verið með garð frá upphafi,“ segir hún.
Alltaf verða þó breytingar hjá fólki og nýir komast að. Heiðrún segir að ef hún hafi upp á að hlaupa svæði ef mikið er um umsóknir og yfirleitt myndist einhver biðlisti á hverju vori. „Þá reynum við að vinna upp svæði svo allir fái reit,“ segir hún
Falin perla í bæjarlandinu
Heiðrún segir bæjarbúa hafa tekið görðunum opnum örmum. „Það er hér sem dæmi fólk sem er hætt að vinna og vill hafa eitthvað fyrir stafni, og finnst tímanum vel varið í að rækta grænmeti. Og eiga góðar og notalegar stundir í kyrrð og ró hér í görðunum. En það má líka að sumu leyti segja að garðarnir séu falin perla í bæjarlandinu og alls ekki allir sem vita af tilvist þeirra.
„Margir sem hingað koma höfðu ekki hugmynd um að þessi starfsemi væri í boði hér en hafa heillast af umhverfinu og upplifað sannkallaðar gæðastundir á fallegum sumardögum,“ segir hún.