Matargafir aðstoðuðu yfir 200 fjölskyldur fyrir jólin
„Það er ekki laust við að ég sé klökk og full þakklætis,“ segir Sigrún Steinarsdóttir sem heldur utan um Matargjafir Akureyrar og nágrennis. Beiðnir um aðstoð hafa aldrei verið fleiri en nú fyrir jólin. Sigrún og bakhjarlar hennar aðstoðuðu alls yfir 200 fjölskyldur, ýmist með innlögnum á reikning Matargjafa, gjafakortum, mat, jóla- og eða skógjöfum.
Þá segir Sigrún að 12 fjölskyldur hafi fengið beinan stuðning sem virkar þannig að fólk kýs að styðja ákveðna fjölskyldu um ákveðna upphæð og fer það oft eftir fjölskyldustærð. Hún nefnir að einn af slíkum styrkum sé þannig að hjón í bænum eldi jólamat og aki honum heim til einstaklings sem vill vera einn um jólin „Það eru margir einstaklingar sem vilja vera einir um jólin og ég mun bæta þessu við fyrir næstu jól, þetta er fallega gert og eflaust margir sem myndu vilja aðstoð af þessu tagi.
Sigrún nefnir að í það minnsta 15 matarpokar/kassar með jólamat hafi farið úr matarkistu við heimili hennar í gær, Þorláksmessu og líklegt sé að fleiri setji þar jólamat. „Mér bárust í allt 28 ábendingar um fjölskyldur eða einstaklinga sem voru í vanda fyrir jólin, þetta er fólk sem leitar sér ekki sjálft aðstoðar. Sem dæmi var ein kona sem átti um 500 krónur á sínum reikningi og hafði ekki svigrúm til að mat og gjafir fyrir börn sín. Mér hafa aldrei borist jafn margar slíkar ábendingar,“ segir hún, en Matargjafir veittu aðstoð víðar en á Akureyri, m.a. Sauðárkróki, Siglufirði, Húsavík sem dæmi.
Aukning milli ára
Sigrún segir að í fyrra hafi Matargjafir aðstoðað 128 fjölskyldur eða einstaklinga auk 9 sem fengu beina styrki frá öðrum fjölskyldum eða 137 í allt. Fleiri óskuðu eftir aðstoð núna, enda hefur efnahagsástandið versnað til mikilla muna á milli ára. Hún segist þaklát fyrir þann stuðning sem nærsamfélagið veiti henni. „Það standa margir þétt á bak við mig og hafa gert í hverjum einasta mánuði í rúm 9 ár. Án þeirra sem lagt hafa lið væri þetta ekki hægt.“
Sigrún nefnir að hún hafi notið góðrar aðstoðar Ástu Einarsdóttur sem m.a. hafi farið um bæinn, sótt flöskur til einstaklinga og fyrirtækja og skilað í Endurvinnslu. Hún hafi útvegað gosdrykki hjá Ölgerðinni, kartöflum frá Síla- og Einarsstöðum og virkjað stórt og gott tengslanet sitt til að afla fjár og varnings hjá fyrirtækjum víða. Þannig hafi hún t.d. rætt við Hagkaup sem styrkti Matargjafir um 500 þúsund krónur sem verulega munaði um.