Margskonar fróðleikur um fugla í Fugladagbókinni

Krossnefur. Mynd/aðsend
Krossnefur. Mynd/aðsend

Fuglaskoðun nýtur mikilla vinsælda hér á landi og má sem dæmi nefna að síður eru á fésbók um fugla og ýmslegt þeim tengdum. Siglfirðingurinn Sigurður Ægisson hefur sent frá sér bók sem nefnist Fuglar á Íslandi og árstíðirnar fjórar: Fugladagbókin 2022. Horfir hann einkum á þann mikla fjölda fuglaáhugamanna hér á landi varðandi nýju bók sína, en hún er sérsniðin að þörfum fuglaáhugafólks.

Sigurður segir bókina nýjung á bókamarkaði hér á landi, en hún er uppsett á þann hátt að á undan hverrri viku er fróðleikur um eina tiltekna fuglategund og eru 52 slíkar í bókinni líkt og vikur ársins. Þá er möguleiki á að skrá hvern dag þá fugla sem maður sér og fjölda þeirra.

Um helmingur þeirra fugla sem fróðleiksmolar eru um eru flækningsfuglar en upplýsingar um þessa framandi gesti hafa ekki verið aðgengilegar almennum lesendum til þess, heldur nær eingöngu verið um þá fjallað í lokuðum hópum eða sérhæfðum tímaritum. Um 400 fuglategundir hafa sést á Íslandi frá upphafi skráningar, þó einungis 75 til 80 verpi hér að staðaldri.

Bókin er byggð upp í kringum almanaksárið, en jafnframt misseristalið gamla, sem var fullmótað á 12. öld og hefur m.a. að geyma þorra og góu, og því er merkt inn í skýringartextann efst hvenær gömlu mánuðirnir byrja, auk þess sem hver árstíð fær sinn lit.     

Fugladagbókin 2022 hentar vel sem fylgirit í náttúrufræðikennslu í grunnskóla eða þá í fjölskyldugönguna eða -rúntinn, til að skrá það sem fyrir augu ber.

Nýjast