20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Mammviskubit
Í síðustu viku tók ég þá ákvörðun að taka börnin mín tvö úr skóla og leikskóla. Það gerði ég vegna þess að ég hef tök á því og vil ég að börn fólks í framlínu nái að vera áfram í skóla og leikskóla eins vandræðalaust og hægt er. Ég hef unnið í leikskólum og grunnskólum síðustu tíu árin svo ég vissi nánast, að ég hélt, að þetta yrði ekkert stórmál. Það eina sem ég þyrfti að gera væri að vera með pottþétta dagskrá hvern einasta dag fyrir börnin. Auðvelt ekki satt?
Fyrstu tveir dagarnir gengu einsog í sögu. Ég montaði mig af því að hafa reynsluna svo þetta gæti ekki klikkað hjá mér. Það fór fljótt að halla undan fæti hjá okkur litlu fjölskyldunni því jú það eru flutningar á næsta leiti en ég þurfti samt að passa að börnin fengju þá umhyggju og það aðhald sem þær þurfa. Þetta er alls ekki auðveld blanda að eiga við.
Nú er ég í ógrynni af mömmuhópum á Facebook þar sem mæður úr öllum áttum tjá sig um uppeldi, fá læknisráð, deila um hitt og þetta og síðast en ekki síst nota mikið orðið mammviskubit. Ef þú lesandi góður veist ekki hvað það þýðir þá er þetta orð náskylt orðinu samviskubit, nema þetta orð tengist því þegar mæður fá samviskubit yfir því hvernig þær ala upp börnin sín. Kröfurnar í samfélaginu okkar eru orðnar svo gríðarlega miklar á mæður. Ekki leyfa börnunum að horfa of lengi á sjónvarpið, ekki gefa börnum sykur, leyfið börnum að hafa skoðanir á öllu, farðu út að leika með barnið þitt að minnsta kosti einu sinni á dag, hafðu barnið þitt alltaf klætt í nýjustu tísku og í guðs bænum aldrei láta barnið gráta! Ég hef lesið ófá rifrildin um ofantalin atriði á samfélagsmiðlum og það versta í kommentakerfunum er þegar ég sé mæður sem leggja sig allar fram við að láta aðrar mæður fá mammviskubit.
Ég sé ekki hvað það kemur öðrum mæðrum við hvernig aðrar mæður ala upp börnin sín. Við erum, að ég held, allar að gera það sem við teljum börnunum okkar fyrir bestu. Svo er það með blessuð börnin að þau eru jafn misjöfn og þau eru mörg, rétt einsog við fullorðna fólkið. Það er engin ein leið rétt við að ala upp börn. Það tel ég að ég geti fullyrt. Nú á ég tvö börn einsog ég sagði hér að ofan og guð hjálpi mér ef ég hefði ætlað að nota sömu uppheldisaðferðir á þá yngri einsog ég notaði á þá eldri. Þær eru jafn ólíkar og svart og hvítt. Þannig er þetta líka í stóra samhenginu. Ef við sem mæður gætum bara allar áttað okkur á því að við stjórnum einungis okkar eigin hegðun þá gætum við í sameiningu útrýmt orðinu mammviskubit. Ég var með krónískt mammviskubit eftir að ég eignaðist eldri stelpuna, sem nú er á tólfta ári, sem varði í ein átta ár eða svo. Ég var átján ára og mörgum í kringum mig fannst þeir knúnir til að setja út á það sem ég var að gera varðandi uppeldið. Uppskeran varð krónískt mammviskubit.
Ég er alls ekki að tala um að fólk megi ekki gefa góð ráð, en það er alltaf foreldrisins val hvort það nýtir sér ráðið. Það sem ég er að tala um er þegar foreldrar eru að dæma aðra foreldra og það oft á opnum miðlum til þess eins að koma því til skila að þeirra ráð er betra en öll önnur ráð. Ég verð nú að segja að ég er ekki hissa á að jákvæð sjálfsmynd fari hratt niðurávið hjá nýbökuðum foreldrum þegar þetta er það sem þau mæta.
Niðurstaðan er sú að mammviskubit er eitthvað sem mæður eiga ekki að fá. Við erum allar að gera okkar besta. Þú ert ekki verri mamma þá barnið þitt fái sykur, þú ert ekki verri mamma fyrir að barnið þitt horfi á sjónvarpið, þú ert ekki verri mamma fyrir að eiga ekki öll flottustu fatamerkin fyrir krílið og þú ert alls ekki verri mamma en einhver önnur mamma sem tjáir sig um þínar uppeldisaðferðir á samfélagsmiðlum. Ekki ætla ég að fá mammviskubit yfir því að ég sitji hér á miðvikudagsmorgni að skrifa þennan pistil og tæplega fjögurra ára dóttir mín gæðir sér á sleikjó og horfir á youtube á meðan.
Mig langar að enda þennan pistil á að skora á vinkonu mína Katrínu Eiríksdóttur að skrifa næsta pistil.
-Dagrún Birna Hafsteinsdóttir