20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Lýsistankarnir á Raufarhöfn fá nýtt hlutverk
Sigurður Ingi Jóhannsson, innviðaráðherra, hefur úthlutað styrkjum að upphæð 130 milljónum króna til tíu verkefna á vegum sjö landshlutasamtaka sveitarfélaga. Styrkjunum er ætlað að efla byggðir landsins og er úthlutað til sértækra verkefna á sóknaráætlanasvæðum í samræmi við stefnumótandi byggðaáætlun fyrir árin 2022-2036.
Verkefnið „Lýsistankarnir á Raufarhöfn fá nýtt hlutverk“ fékk 15 milljónir króna. Verkefnið snýr að því að gera lýsistankana manngenga og mögulega til notkunar fyrir upptökur, listsýningar, tónleika og fleira en sótt var um 20,7 milljónir til verkefnisins.
Markmiðið með framlögunum er að tengja sóknaráætlanir landshluta við byggðaáætlun og færa heimafólki aukna ábyrgð á ráðstöfun fjármuna. Áhersla er lögð á að styrkja svæði þar sem er langvarandi fólksfækkun, atvinnuleysi og einhæft atvinnulíf. Verkefni sem hljóta styrk skulu nýtast einstökum svæðum eða byggðarlögum innan landshlutans, eða landshlutanum í heild. Íbúaþróun, samsetning atvinnulífs og atvinnustig og meðaltekjur var meðal þess sem lagt var til grundvallar við mat á umsóknum.
Fá menningarlegt hlutverk
Nanna Steina Höskuldsdóttir verkefnastjóri hjá SSNE segir verkefnið snúast um að gera lýsistankana á Raufarhöfn manngenga og mögulega til notkunar fyrir kvikmyndagerð, tónleika og menningarviðburði en tankarnir eru sagðir einstakir og hafa sögulegt gildi.
Verkefnið er á höndum Norðurþings sem styrkir verkefnið með mótframlagi og sér um verkstjórn.
Aðrir samstarfsaðilar eru Gjóla ehf ( Ásdís Thoroddsen). En Ásdís kemur að verkefninu með sérfræðiþekkingu sinni á flestum sviðum menningar.
Nanna segir tilgang verkefnisins vera að gefa gömlum byggingum á Raufarhöfn hlutverk, efla menningarlíf, laða að nýtt fólk og ferðamenn. „Markmiðið er að koma lýsistönkunum í nýtilegt ástand, en þeir hafa staðið án hlutverks í áratugi. Tankarnir eru fyrir löngu orðnir staðartákn á Raufarhöfn. Og er þetta einstakt tækifæri til finna þeim nýtt hlutverk,“ segir Nanna og bætir við að ávinningur verkefnisins sé bæði samfélagslegur og menningarlegur.
Ímynd samfélagsins
„Tankarnir standa áfram sem hluti af ímynd samfélagsins og fá menningarlegan tilgang og hlutverk. Þetta er fyrsta skrefið. Í framtíðinni verður mögulega hægt að byggja á milli tankanna eða eitthvað slíkt,“ útskýrir Nanna.
Meðal verkþátta, segir Nanna að setja þurfi upp tvær hurðir, lagfæra þök, tengja rafmagn og setja upp lýsingu og leggja göngustíg að tönkunum.
Vilja fjölga tækifærum
„Strax og búið er að setja hurðir verður hægt að nýta tankana fyrir listasýningar, tónleika og fleira. Mikill velvilji er meðal íbúa fyrir verkefninu, ýmsar hugmyndir hafa komið fram í gengum árin um hvernig nýta megi tankana, og opnar þetta verkefni á að eitthvað af þeim hugmyndunum ná fram að ganga,“ segir Nanna enn fremur og bætir við að hverfisráð Raufarhafnar hafi talað fyrir því að tankarnir fái nýtt hlutverk.
„Verkefni sem þetta eikur fjölbreytni og eflir Raufarhöfn í víðum skilningi. Það er til mikils að vinna að fjölga tækifærum til menningar og atvinnu á jaðarsvæðum og lítum við svo á að þetta sé einn liður í því verkefni,“ segir Nanna að lokum.