13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Lyfturnar ræstar í Hlíðarfjalli á föstudag
Skíðasvæðið í Hlíðarfjalli verður opnað á föstudag kl. 16 og verður opið til kl. 19 fyrsta daginn. Á laugardag og sunnudag verður síðan opið frá kl. 10-16. Skíðafærið er gott og útlit fyrir ágætt veður. Þetta kemur fram í tilkynningu
„Það eru fínustu snjóalög hérna, hefur aðeins bætt í síðustu daga og snjóbyssurnar hafa verið í gangi. Þannig að þetta lítur allt saman ágætlega út og mér sýnist veðurspáin heldur vera að batna frekar en hitt," segir Brynjar Helgi Ásgeirsson, forstöðumaður skíðasvæðisins.
„Það er kannski helst veðrið sem gæti gert okkur einhvern grikk. Spáin er eilítið leiðinleg fyrir föstudaginn en mun betri fyrir laugardag og sunnudag. Fólk ætti því að fylgjast vel með spánni þegar nær dregur en ég er vongóður um að fyrsta helgi vetrarins í Hlíðarfjalli verði bara frábær. Síðan vil ég minna fólk á heimasíðuna okkar þar sem er að finna allar upplýsingar um opnunartíma og hægt að kaupa vetrarkort á forsölutilboði. Það er líka sniðugt að fylgja okkur á Facebook," segir Brynjar Helgi.