Lýðræði er líka fyrir börn

Pistlahöfundi finnst það vera réttlætismál að börn fái vægi í kosningum með atkvæðisrétti. Mynd:JS
Pistlahöfundi finnst það vera réttlætismál að börn fái vægi í kosningum með atkvæðisrétti. Mynd:JS

Ég velti því oft fyrir mér hvernig við getum kallað okkur lýðræðissamfélag þegar aldur er viðurkennd breyta til að ákveða aðkomu að lýðræðinu. 

Nú hefur Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna ásamt 14 þingmönnum allra flokka á þingi nema Framsóknarflokks, lagt fram frumvarp á Alþingi um breytingar á lögum um kosningar til sveitarstjórna. Verði frumvarpið að lögum munu aldursmörk kosningaréttar í sveitarstjórnarkosningum 2018  miðast við 16 ár í stað 18 ár eins og nú er. Þar með fjölgar kjósendum um níu þúsund.

Þvílíkt endemis bull og vitleysa. Væri ekki nær að afnema með öllu aldurstakmark á mannréttindum sem kynslóðir dagsins í dag hafa flestar alist upp við að líta á sem sjálfsögð. Afhverju þarf einhverjum fyrirfram ákveðnum aldri að vera náð til að öðlast þessi mannréttindi?

Konur hafa ekki vit á pólitík

Ég hef stundum viðrað þá hugmynd að ekkert aldurstakmark skuli vera á kosningarétti og það fyrsta sem fólk segir er: „Hvað hafa börn með kosningarétt að gera? Þau hafa engan áhuga á stjórnmálum.“ Það sama var sagt um konur, þegar einhverjum datt í hug fyrir meira en 100 árum að lýðræðið ætti kannski jafnt yfir konur og karla að ganga.

Sjá einnig: Afhverju varst þú að gista hjá löggunni?

Líklega er það rétt að stór hluti kvenna hafi engan áhuga á stjórnmálum og það sama má segja um stóran hluta karla, réttindi þeirra mega þó ekki ákvarðast eftir áhugasviði þeirra. Það er því rökrétt að halda því fram að börn hafi hugsanlega engan áhuga á pólitík. Ríkið á þrátt fyrir það ekki að vera ákveða hvaða einstaklingar eru líklegir til að hafa áhuga á einhverju. Við búum ekki í Norður-Kóreu. Við búum í lýðræðissamfélagi sem virðir mannréttindi (fyrir flesta).

Börn hafa ekki vit á stjórnmálum! Þetta gætu verið rök gegn því að veita þeim kosningarétt. Enn og aftur erum við að tala um rök sem notuð voru gegn kosningarétti kvenna á sínum tíma. Ef við ætlum að útdeila þessum sjálfsögðu mannréttindum eftir hyggjuviti einstaklinga er ég hræddur um að kosningabærum Íslendingum myndi fækka umtalsvert því það er fjöldinn allur af kosningabæru fólki sem hefur ekkert vit á stjórnmálum. Ég gæti líka talið upp fjölmarga stjórnmálamenn í gegnum tíðina sem ekki hafa hundsvit á pólitík.

Ég á bróður sem er andlega fatlaður – hann er á fimmtugsaldri með vitsmunaþroska á við barn. Það er í raun ekkert sem segir að hann sé „hæfari“ kjósandi en 5 ára gamall sonur minn. Ég vona samt að það detti engum í hug að svipta bróður minn þessum sjálfsögðu mannréttindum sínum að geta kosið  í kosningum; af því að svo kunni að vera að hann hafi ekki þroska til að vita alltaf hvað er honum fyrir bestu. Þegar allt kemur til alls er það ábyrgð frambjóðenda að kynna málefni sín. Það er þeirra að höfða til fólks óháð því hverju það hefur áhuga- eða vit á.

Börn eru áhrifagjörn

Einhverjir hafa eflaust áhyggjur af því að það sé of auðvelt að hafa áhrif á börn. Foreldrar komi bara til með að ákveða hvað börnin kjósi. En er eitthvað að því? Við búum nú einu sinni í samfélagi þar sem foreldrum er að flestu leyti treyst til að hafa vit fyrir börnum sínum, það gengur bara ágætlega. Konur jafnt sem karlar hafa í mörgum tilfellum áhrif á það hvað makar þeirra kjósa. Það sama má segja um yngstu kjósendurna í dag, margir þeirra eru undir áhrifum frá foreldrum sínum. Og snýst ekki starf stjórnmálaflokka að miklu leyti um það að hafa áhrif á val kjósenda. Ég veit ekki betur en að hljómfagur loforðaflaumur stjórnmálaflokkanna í aðdraganda kosninga hafi talsverð áhrif á fullorðna kjósendur – jafnvel þó að flestir geri sér grein fyrir því innst inni að flest gufa þessi loforð upp í stjórnarmyndunarviðræðum að loknum kosningum – svikin eru kölluð málamyndanir.

Stjórnmálaflokkar eru líka fullfærir um það að haga kynningarstarfsemi sinni þannig að hún höfði til forráðamanna yngstu kjósendanna. Er maður ekki alltaf að heyra háværar raddir um það úti í samfélaginu að stjórnvöld geri ekki nóg fyrir barnafjölskyldur? Ef börn fengju atkvæðisrétt myndi það þrýsta á frambjóðendur til að leggja þyngri áherslu á málefni barnafjölskyldna. Ég myndi vilja búa í samfélagi þar sem fjölskyldan ratar á dagskrá stjórnmálanna oftar en bara á tyllidögum.

Þess vegna er það bæði sjálfsagt og hollt samfélaginu að fjölskyldur hafi rétt á jafnmörgum atkvæðum og nemur fjölda fjölskyldu meðlima. Gildir þá einu hver hefur áhrif á hvern innan fjölskyldunnar. Það er einfaldlega réttlætismál að börn hafi sæti við borðið í málum sem varða hag þeirra, jafnvel þó að foreldrarnir hafi áhrif á það hvar atkvæði þeirra lendir.

Stjórnmálöfl standi fyrir stóðlífi

Ég veit ekki hvort nokkur hafi áhyggjur af því að fólk fari að fjölga barneignum til þess að fjölga atkvæðum fjölskyldunnar ef aldurstakmark á kosningarétti yrði aflagður. Sjálfur hef ég enga trú á að fólk leggist svo lágt. Að sama skapi sé ég það ekki gerast að stjórnmálaflokkar ráðist í herferðir til að hvetja fylgjendur sína til að leggjast í maraþon-shafteringar til þess að fjölga kjósendum sínum. Nema kannski Framsóknarflokkurinn en fylgjendur hans eru nú flestir komnir af barneignaraldri svo þær áhyggjur eru úr sögunni.

Nýjast