Lokaorðið - Mæður allra alda

Ásta F. Flosadóttir átti lokaorðið Vikublaðinu s.l fimmtudag
Ásta F. Flosadóttir átti lokaorðið Vikublaðinu s.l fimmtudag

Það styttist trúlega í þriðju heimsstyrkjöldina, og þó er býsna stutt síðan þeirri síðustu lauk, elsta kynslóðin man þá tíma vel.  

Stríð. Það er svo margt sem ég skil ekki og stríð skil ég alls ekki. Hve nöturlegt tilgangsleysi. Manngerðar náttúruhamfarir og hörmungar. Leiðtogar þjóða, gamlir karlar, senda unga fólkið á vígvöll að drepa annað ungt fólk sem berst vegna annarra álíka leiðtoga. Hvers virði eru mönnum eiginlega völdin, fara þessir valdagráðugu ekki bara sömu leiðina og við hin, sauðsvartur almúginn? Öll förum við héðan jafn nakin og allslaus og við komum. Til hvers er barist?

Hingað í Höfða komu stundum breskir hermenn sem héldu til á Grenivík og áttu að vakta skipaferðir í firðinum, jafnaldrar sumra Höfðasystkina. Röltu um, því þeim leiddist og vantaði félagsskap. Þetta voru stráklingar, illa búnir, settir niður við þennan kalda fjörð norður í ballarhafi að sitja fyrir ókunnum óvini sem aldrei kom. Þeim var tekið vel, ófáar máltíðir innbyrtar, gefnir sokkar og vettlingar, alúð og hlýja. Þegar amma fékk aðfinnslur og athugasemdir um það hvort þetta væri nú hollur félagsskapur fyrir unga fólkið svaraði hún: ,,Það myndi ég vilja, ef strákarnir mínir væru hraktir til útlanda að taka þátt í stríði, að það væri gott fólk sem myndi hugsa vel um þá". Mæður allra landa og allra alda. Hugsa þær ekki eins?

Og ég horfi á 17 ára unglinginn minn og jafnaldra hans. Mikið vona ég og óska að þetta unga fólk verði aldrei neytt til að taka sér drápstól í hönd og beita á ungt fólk annarra þjóða. Það flýgur að mani sú hugsun; meta konur lífið dýrmætar en karlar? Mögulega vegna þess að þær vita, þekkja, skilja erfiðið, fyrirhöfnina, sársaukann og ástina við að eignast og eiga börn. Þurfum við ekki fleiri leiðtoga sem meta lífið meira en völdin?

 

Nýjast