Lokaorðið-Loðna einkadóttirin

Heiðrún ásamt loðnu einkadóttur sinni.  Mynd Aðsend
Heiðrún ásamt loðnu einkadóttur sinni. Mynd Aðsend

Ég átti aldrei gæludý í æsku, nema skjaldböku með systrum mínum. Henni var sturtað niður um klósettið, því allir héldu að hún væri dauð. Síðar fréttum við að trúlega hafi hún verið í dvala. Veit ekki hvað var rétt í því, en í minningunni átti hún ekki sérlega skemmtilegt líf og var sjálf ekki mjög fjörug. Ég var hins vegar mikið í sveitinni hjá ömmu og afa, vön dýrum þ.m.t. hinum hefðbundna sveitahundi sem var frammi í forstofu, ekki upp í sófum, borðum eða rúmum. 

Áralangt suð um hund 

Börnin mín voru lengi búin að suða um að fá hund, en ég varðist vel. Það var aldrei rétti tíminn og ég gerði mér upp hundaofnæmi og tókst þannig að tefja málið. Svo var það eitt sumarið, að börnin voru búin að sjá í gegnum þessa ofnæmis(hvít)lygi og allt í einu var kominn hvolpur á heimilið. Hún er kölluð loðna einkadóttirin.

AríaBlær 

AríaBlær varð 8 ára um daginn. Hún skilur öll fyrirmæli heimilismanna en það hvarflar ekki að henni að hlýða, fer sínar eigin leiðir, eins og hin börnin á heimilinu. Henni finnst það argasti dónaskapur ef heimilismenn taka púsl og dagblöð framyfir hana og sest þá ofan á púslin og dagblöðin (já, hún fær stundum að vera upp á borði). Hún tekur kreditkort frúarinnar traustataki ef henni blöskrar eyðslan, hef fundið það vel nagað. 

Hundaréttindi 

Hundaréttindi eru ofar mannréttindum í hennar huga og hún er sannarlega dugleg að minna á sig. Hún elskar fjallgöngur og athygli. Hún er sú eina á heimilinu sem tekur fagnandi á móti öllum og er sannfærð um að allir elski sig. Hún tryllist þó ef hún sér ketti, enda alþekkt að þeir eru fjöldamorðingjar. Hún er dekruð í döðlur alla daga – og hún elskar það.

Niðurstaðan er því sú að það er almennt betra að vera hundur en skjaldbaka, í það minnsta á mínu heimili.

Nýjast