Lokaorðið - Ilmur af löngu liðnum heyskap.

Svanhildur Daníelsdóttir
Svanhildur Daníelsdóttir

Árin sem um ræðir eru uppúr 1960 þegar koma þurfti heyi í hús. Heima var til Bedford vörubíll, vínrauður með svörtum frambrettum og háum grindum. Eftir endilöngum pallinum á vörubílnum lágu tveir kaðlar og endarnir löfðu niður að aftan og fram á stýrishúsið. Aftan á bílpallinum var stór járnhringur. Þar var svokölluð heyhleðsluvél hengd aftaní.

Heyhleðsluvélar voru einskonar færiband, upprétt færiband á tveimur stórum járnhjólum. Lögun þeirra minnti á sitjandi hund. Pabbi keyrði vörubílinn lötur hægt með heygarðann á milli hjóla. Þegar bíllinn fór af stað, fór færibandið í vélinni af stað. Það færði heyið upp og svo féll það niður á pallinn. Mamma var uppá pallinum. Hún tók á móti heyinu jafn óðum og færði það fram að stýrishúsinu. Af og til var stoppað og krakkaskarinn sendur upp á pallinn til að færa heyið sem mest fram og troða vel. Þannig komst meira á pallinn. Það var mikill hamagangur og sprell þegar krakkarnir ólmuðust í heyinu. Þegar pallurinn var orðinn kúfaður var vélin tekin frá og endarnir á köðlunum bundnir saman. Þá var komið mikið heyhlass.

Mamma og krakkaskarinn settust ofaná hlassið og pabbi keyrði ofur varlega heim að hlöðu. Krakkarnir voru reknir niður og langt í burtu til öryggis, því næst þurfti að draga hlassið inn í hlöðuna. Pabbi sturtaði við baggagatið og svo var hlassið dregið inn á blökkum með stálvírum. Kaðlarnir leystir af hlassinu, dregnir undan og lagðir á bílpallinn á nýjan leik. Ef stálvírarnir slitnuðu þegar verið var að draga inn var voðinn vís. Þess vegna voru krakkarnir reknir í burtu. Svo var eftir að moka úr hlassinu með heykvísl inni í hlöðunni. Það var þrælavinna og erfitt að halda jafnvægi í mjúku heyinu og moka samtímis. Það var eins og að standa á brimbretti og róa samtímis. J

Já, ég er ekki mjög gömul, en þegar ég rifja þetta upp finnst mér eins og ég sé aftan úr grárri forneskju.

Nú fara heyannir í hönd í sveitum landsins. Vonandi verður spretta og tíðarfar hagstætt og heyfengur góður.

 

Nýjast