Lokaorðið - Hve glöð er vor æska

Heiðrún E. Jónsdóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l fimmtudag
Heiðrún E. Jónsdóttir átti lokaorðið í blaðinu s.l fimmtudag

Á vorin er uppskerutími nemenda. Þeir skoppa út úr skólunum, taka stolt á móti prófskírteinunum sínum og út í sumarið.

Valhoppandi foreldrar

Við foreldrar  valhoppum einnig af kæti. Hvað er betra en sjá ungmenni ná markmiðum sínum og taka glöð á móti næsta kafla í lífinu? Með mikilli gleði og stolti horfir maður á ungmennin setja upp hvíta kollinn eða taka á móti prófskírteinum úr iðngreinum eða háskóla. Gleðilegt að sjá dúxana uppskera, en árangur allra skiptir máli til að varða leiðina áfram og eflir sjálfstraustið.

 Skólaárin eru ekki bara tími bókalærdóms.

En á  þessum árum er ekki eingöngu mikilvægt að stunda námið vel. Mikilvægt er að verja góðum tíma í að safna í minningarbankann, safna góðum og traustum vinum og byggja upp tengslanetin sín. Við lærum að takast á við vandamál sem við fáum í fangið. Lærum að lesa í aðstæður og fólk. Lærum að verða betri manneskjur. Á þessum árum reynum við á mörk okkar og annarra, gerum mistök sem við lærum af. Gerum asnastrik, sem við myndum sannarlega ekki gera í dag, en hlæjum að þeim á góðum stundum.

Skellur

Eftir því sem árin færast yfir þá verða æskuvinirnir enn mikilvægari en áður. Þeir taka manni eins og maður er. Vissulega missir maður tengsl við suma, við þroskumst og áhugamál breytast, en oft vakna gömul vinatengls upp að nýju. Mikilvægi meðaleinkunnar í grunn- og menntaskóla fjarar hins vegar fljótt út, svo  lengi sem maður stendur sig.  Þannig hefur enginn spurt mig síðustu þrjá áratugi hvað ég var með í meðaleinkunn í grunn- eða menntaskóla. Það er vissulega skellur fyrir mig, því ég tók námið alvarlega og var með afar góðar einkunnir þótt ég segi sjálf frá, svona fyrst enginn spyr mig. Sem betur fer lagði ég samhliða áherslu á vini og góðar minningar, það hefur margfaldast að virði í lífsins göngu.

Nýjast