Lokaorðið - Hádegi á sjöunda áratugnum.
Eftir því sem ég eldist hugsa ég meira og les meira um líf formæðra minna. Ekki þarf að fara langt aftur til þess að átta sig á hve tíðarandinn, fjárhagurinn og tækifærin voru gjörólík því sem við þekkjum í dag. Það þarf ekki lengra aftur en 50 - 60 ár.
Saltkjöt, steikt slátur, svikinn héri og góðbúaglás.
Á æskuheimili mínu sem var stór sveitabær fór matartíminn í hádeginu fram með eftirfarandi hætti. Fyrst voru bornir fram heitir réttir, kjötréttir eða fiskréttir í allskonar útfærslum. Fiskibollur, kjötbollur, buff og beinlausir fuglar. Snitsel, gúllas, gufusoðinn kjöthringur, steiktur fiskur, siginn fiskur og saltfiskur. Saltkjöt, steikt slátur, svikinn héri og góðbúaglás.
Spónamatur
Undantekningalaust var svo eftirmatur – spónamatur. Ég átta mig ekki á hvenær spónamaturinn lagðist af, líklega uppúr 1970. Sérstaklega er mér minnisstæð eggjamjólkin. Hvíturnar voru þeyttar sér og flutu ofaná eins og freyðibað. Ölsúpan var vinsæl. Það var súpa gerð úr maltöli og sykurbrúnaðir rúgbrauðsteningar settir útá. Sætsúpa, naglasúpa, makkarónumjólk og kringlumjólk. Sagóvellingur, heitur búðingur með romm bragði og hrísmjölsgrautur með saft. Kakómjólk með tvíbökum, ávaxtagrautur, rabarbaragrautur og villibráð úr kálfsblóði. Fjallagrasamjólk, brauðsúpa með rjóma, ystingur og ábrystir. Á sumrin, skyrsúpa með vanilludropum. Báðir réttir borðaðir af djúpum diski. Sama diski.
Aldrei uppþvottavél.
Vatnið hitað í hraðsuðukatli og þvegið upp í vaskafati. Hádegismaturinn var aðal máltíð dagsins og allur matur var heimagerður frá grunni. Á kvöldin voru allir afgangar frá hádeginu uppétnir auk þess súrt slátur, hræringur eða skyr. Hræringur er hafragrautur og skyr hrært saman. Hafragrauturinn var afgangur frá morgninum. Ef skyrið var orðið gamalt og súrt var hráu eggi hrært saman við og þá fór súrinn og skyrið varð mjúkt og gott. Mamma hafði verið í húsmæðraskóla og kunni mikið og vel að elda og hún kunni mikið í næringarfræði. Síðar var talað niðrandi og í háði um þessa skóla sem voru lagðir niður og kallaðir grautarskólar. Uppúr því fór þjóðin að fitna.
Engir ,,happy hours“á þessum tíma
Allar húsmæður þessa tíma voru hetjur sem aldrei höfðu tíma fyrir jóga, leshópa, gönguhópa, núvitundaræfingar eða „happy hour“ nútímans. Þær voru einfaldlega örþreyttar alla daga, áttu aldrei frí og ef einhver örlítil stund gafst, þá vildu þær vera einar í næði og sofa eða lesa.