20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Lokaorðið - Að breyta dimmu í dagsljós
Saga af móður, dóttur og hjúkrunarheimili. Móðirin var afar sjálfstæður bóndi og hafði fyrir löngu ákveðið að yrkja jörð sína til æviloka, fjörgömur og alein. Þrátt fyrir sjálfstæðið hafði henni stöku sinnum dottið í hug að færa sig á þéttbýlli stað, en þær tilraunir runnu jafnharðan út í sandinn. Hún ákvað þess í stað að fela dóttur sinni að setja sér stólinn fyrir dyrnar þegar að í óefni væri komið. Að setja einhverjum stólinn fyrir dyrnar var orðatiltæki sem einatt var notað á heimilinu og þýddi einfaldlega - hingað og ekki lengra.
Svo kom haust. Dóttirin sá að nú væri hin óumflýjanlega stund upp runnin. Hún yrði að standa í lappirnar og efna loforðið. Kötturinn fékk að fylgja með bónda sínum á eitt fallegasta hjúkrunarheimili á Íslandi. Það létti mikið undir en átakamikill tími tók við.
Sími dótturinnar hringdi á miðjum morgni. Bóndinn grét og bað dótturina að koma og fara með sig og köttinn heim. Mæðgurnar sátu ráðalausar í herbergi móðurinnar. Opnast þá dyrnar á herberginu og inn kemur iðjuþjálfinn. Í minningunni var bjart ljós umlukið þessa frelsandi veru. Iðjuþjálfinn gengur til gömlu konunnar. Hann heldur á flösku með gulum vökva, ávarpar konuna með nafni og segir að þeim hafi verið gefinn broddur. Nú sé meiningin að sjóða ábrystir í hádegismat en enginn í húsinu kunni að gera það – hvort hún geti hjálpað þeim. Og eins og við manninn mælt. Bóndinn rauk á fætur, hamur sorgarinnar hvarf á augabragði og andlitið ljómaði eins og sól í heiði. Nú auðvitað, sagði hin aldna kona og skelli hló. Þreif stafina sína því bændur nota tvo stafi en ekki göngugrind, göngugrindur eru fyrir gamalt fólk. Brunaði fram með iðjuþjálfanum og kötturinn fylgdi í kjölfarið. Málið var dautt.
Svona fór allt starfið fram á þessu yndislega hjúkrunarheimili. Starfsfólkið hafði einstakt lag á að finna íbúunum hlutverk.. Ekkert er jafn mikilvægt og að reyna að finna öllum einhvern tilgang og hlutverk þegar ellin eða sjúkdómar hafa nagað burtu þróttinn sem eitt sinn var.
Það breytir oftar en ekki sárasta myrkri í skínandi ljós.