20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
LLA setur upp Skilaboðaskjóðuna
Leiklistarskóli Leikfélags Akureyrar mun setja upp verkið Skilaboðaskjóðan í vetur. Sýningin er endahnúturinn á námskeiði fyrir börn í 8. 9 og 10. bekk grunnskóla sem hefst 4. september og lýkur 24. nóvember með sýningu hópsins í Samkomuhúsinu.
Námskeiðið er nú með breyttu sniði frá því sem áður hefur verið. Leitast er nú til þess að mæta þörfum ungs fólks sem vill takast á við stærri listræna áskorun. Krakkarnir verða í kennslu tvisvar í viku og munu þau æfa leikrit undir leikstjórn tveggja kennara ásamt því að njóta aðstoðar búninga og leikmyndahönnuðar.
Skilaboðaskjóðan er ævintýrasöngleikur byggður á samnefndri bók Þorvaldar Þorsteinssonar sem kom út árið 1986 og naut mikilla vinsælda. Söngleikurinn var frumsýndur á stóra sviði Þjóðleikhússins í nóvember árið 1993 í leikstjórn Kolbrúnar Haldórsdóttur og sló eftirminnilega í gegn. Jóhann G. Jóhannsson, tónlistarstjóri Þjóðleikhússins, samdi tónlist fyrir verkið við texta Þorvaldar og vorið 1994 kom út geisladiskur með tónlistinni í flutningi leikara og hljómsveitar leikhússins.
Skilaboðaskjóðan segir frá Putta og Möddumömmu sem eiga heima í Ævintýraskóginum þar sem öll ævintýrin gerast. Þegar Nátttröllið rænir Putta til að breyta honum í tröllabrúðu, sameinast allir íbúar skógarins um að bjarga honum áður en sólin sest. En nornin, úlfurinn og stjúpan vilja ekki vera með og þá eru góð ráð dýr.