20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Lítilsvirt félagsþjónusta
Fyrir liðlega sex árum tók ég þá ákvörðun að flytja til Húsavíkur þegar mér var boðið starf félagsmálastjóra í Norðurþingi. Það var spennandi tilhugsun að flytja aftur “heim”. Hér hafði ég búið sem barn og unglingur og á margar góðar og skemmtilegar minningar frá æskuárunum. Það hefur verið lærdómsríkt að kynnast uppeldisstað sínum og nú sem fullorðin manneskja. Húsavík hafði eðlilega breyst mikið á þeim 40 árum sem liðin voru og ég að sjálfsögðu líka. Margt hafði breyst til betri vegar, fannst mér, en annað ekki eins og gengur. Mér var afskaplega vel tekið og Húsvíkingar buðu mig innilega velkomna, það þótti mér vænt um og vil þakka fyrir.
Það var gott að koma til starfa á félagsþjónustunni, þar vann skemmtilegur hópur sem ánægjulegt var að vinna með. Alltaf var tilhlökkunarefni að mæta til vinnu á morgnana. Þó verkefnin væru oft á tíðum erfið og alvarleg var alltaf létt yfir okkur á féló og reyndar öllu starfsfólki Stjórnsýsluhússins. Virkilega skemmtilegur og góður vinnustaður og vinnufélagar sem gaman var að vera nálægt.
Það varð fljótlega ljóst eftir að nýr meirihluti tók við vorið 2014 að ekki fór mikið fyrir áhuga hans á félagsþjónustunni enda höfðu strákarnir merkilegri hlutum að sinna, þeir þurftu að “bora í vegg”. Það var kannski ekki úr háum söðli að detta fyrir félagsþjónustuna en þó fann maður alltaf í tíð fyrri meirihluta að virðing var borin fyrir félagsþjónustunni og starfi félagsmálastjóra, það skipti máli hvað hann sagði og gerði.
Hlutverk félagsþjónustunnar er að tryggja fjárhagslegt og félagslegt öryggi íbúanna og hjálpa einstaklingum til sjálfshjálpar. Það skiptir því miklu máli að sveitarfélagið geti laðað til sín hæft starfsfólk sem leggur metnað sinn í að leysa verkefni sín vel af hendi og veita góða og heildstæða þjónustu. Með faglegri og vandaðri þjónustu er lögð áhersla á að réttur íbúanna sé alltaf ljós og einstaklingum sé ekki mismunað.
Til að halda í gott starfsfólk þarf vinnuumhverfið að vera hvetjandi og starfsmenn þurfa að finna að á þá sé hlustað, að virðing og skilningur sé borin fyrir störfum þeirra. Algjört skilningsleysi, stefnu- og áhugaleysi hefur ríkt í garð félagsþjónustunnar á yfirstandandi kjörtímabili, bæði hjá meirihlutanum og núverandi sveitarstjóra. Þrátt fyrir að í meirihluta sitji flokkur sem kennir sig við félagshyggju, kvenfrelsi og samhjálp.
Það hefur engum dulist sem fylgst hafa með starfsmannamálum í Stjórnsýsluhúsinu að eitthvað mikið er þar að. Allir lykilstjórnendur, utan eins, hafa t.d. hætt á þessu kjörtímabili auk fjölda annarra starfsmanna. Það segir sig sjálft að þegar svona miklar mannabreytingar verða á einum vinnustað á stuttum tíma hlýtur eitthvað mikið að vera bogið við stjórnunina. Baknag, klíkuskapur og eineltistilburðir voru t.d. látið viðgangast með vitund sveitarstjóra og fyrrverandi starfsmannastjóra. Trúnaðargögnum var lekið í þeim tilgangi einum að gera félagsmálastjóra tortryggilegan, fyrrverandi starfsmannastjóri átti heiðurinn af því. Þetta geta sérfræðingar, sem undirrituð fékk til liðs við sig vegna þessara mála, staðfest. Á endanum gefst starfsfólk upp, en fræðimenn telja að örmögnun eða kulnun orsakist ekki síst af lélegri stjórnun á vinnustað.
Þessar miklu mannabreytingar hljóta að vera núverandi meirihluta mikið áhyggjuefni.
Mín einlæga ósk er sú að stjórnendum sveitarfélagsins beri gæfa til að taka hlutverki félagsþjónustunnar alvarlega, leggi metnað sinn í hana, íbúunum til heilla og að staðið verði við bakið á þeim félagsmálastjóra sem vonandi tekst að ráða sem fyrst.
Auglýst hefur verið eftir félagsmálastjóra og umsóknarfrestur ítrekað framlengdur en enginn sótt um sem talinn er hæfur. Maður veltir því óneitanlega fyrir sér hvort það sé tilviljun. Til þess ráðs hefur verið gripið að fá verktaka að sunnan sem ekki hefur séstaka reynslu í félagsþjónustu, þó svo hann hafi talsverða reynslu af sveitarstjórnarmálum, í starf félagsmálastjóra. Hann kemur hingað til Húsavíkur tvo daga aðra hverja viku (örfáa daga í mánuði) og sinnir félagsmálastjórastarfinu ásamt fjölmörgum öðrum verkefnum fyrir hin ýmsu sveitarfélög og ráðuneyti. Það er borðleggjandi að það skapast ekki mikil samfella þegar þannig er að málum staðið, en kannski sýnir þetta fyrirkomulag best hversu lítil virðing er borin fyrir þessu starfi.
Kjörnir fulltrúar verða að átta sig á því hversu gríðarlega mikilvæg félagsþjónustan er og hversu miklu máli hún skiptir þegar einstaklingar ákveða hvar þeir ætla að setja sig niður, ala börnin sín upp, lifa lífi sínu og njóta efri áranna. Félagsþjónustan er ekki síst mikilvæg á þessum tímum þegar miklar breytingar eru að verða á samfélaginu og ég tala nú ekki um ef taka á á móti flóttafólki, þá reynir mest á félagsþjónustuna af öllum þjónustusviðum sveitarfélagsins.
Ég vil þakka öllu því góða fólki sem ég hef unnið með og kynnst þau ár sem ég hef búið hér og starfað.
Dögg Káradóttir,
fyrrverandi félagsmálastjóri.