Líknarmeðferð í heimahúsum

Dóra Björk Jóhannsdóttir
Dóra Björk Jóhannsdóttir

Deild hjúkrunar við Eyjafjörð var stofnuð haustið 2017 sem deild innan Hjúkrunarfélags Íslands. Vikudagur hefur af því tilefni birt nokkrar greinar eftir hjúkrunarfræðinga á Akureyri og nágrenni síðustu mánuði og mun halda því áfram. Í greinunum kynna hjúkrunarfræðingarnir starf sitt. Í þessari viku er það Dóra Björk Jóhannsdóttir sem skrifar.

Ég heiti Dóra Björk Jóhannsdóttir og er hjúkrunarfræðingur í Heimahlynningu á Akureyri. Ég útskrifaðist úr hjúkrunarfræði 1998 frá Háskóla Íslands, lauk svo námi í kennsluréttindum 2011 og mastersnámi í líknar- og krabbameinshjúkrun árið 2015. Í grunnnáminu fannst mér strax heillandi hvað hjúkrunarfræði nær yfir breytt svið og hægt er að vinna á mörgum ólíkum sviðum sem hjúkrunarfræðingur. Enn í dag er það þessi fjölbreytni sem mér finnst mest heillandi við hjúkrun. Frá útskrift hef ég unnið inná sjúkrahúsum, í grunnskóla og vinn eins og áður sagði í dag í Heimahlynningu á Akureyri.

Heimahlynning er sérhæfð hjúkrunarþjónusta sem sinnir líknarmeðferð í heimahúsum og er ætluð einstaklingum með lífsógnandi og/eða versnandi langvinna sjúkdóma. Þjónustan er einstaklingum sem hana þiggja að kostnaðarlausu. Á alþjóðavísu er í vaxandi mæli lögð áhersla á líknarmeðferð strax frá sjúkdómsgreiningu. Þannig hefur líknarmeðferð breyst frá því að vera meðferð sem eingöngu er beitt við lífslok yfir í meðferð sem veitt er í öllu sjúkdómsferli einstaklinga og hefst strax við greiningu á lífsógnandi og alvarlegum sjúkdómum. Líknarmeðferð er því hægt að veita á öllum þjónustustigum og nær til margra sjúklingahópa. Lögð er áhersla á meðferð verkja og annarra einkenna, góð samskipti og að sjúklingar og aðstandendur þeirra geti tekið virkan þátt í ákvarðanatöku varðandi meðferðina.

Heimahlynning á Akureyri hefur verið starfrækt um árabil og hefur þjónustan verið að þróast og tekið miklum breytingum frá því sem upphaflega var. Í Heimahlynningu starfa sex hjúkrunarfræðingar sem allir hafa mikla starfsreynslu í líknarhjúkrun. Þjónusta Heimahlynningar er veitt íbúum á Akureyri og nágrenni en einnig kemur fyrir að þjónustan sé í formi ráðgjafar á nærliggjandi svæðum. Hjúkrunarfræðingar sem starfa í heimahúsum standa frammi fyrir mörgum áskorunum. Þeir þurfa að geta verið sjálfstæðir og metið aðstæður en að sama skapi krefst starfið líka mikillar samvinnu, bæði við einstaklingana sjálfa, fjölskyldu þeirra og aðra fagaðila. Góð líknarmeðferð byggir á þverfaglegu samstarfi og Heimahlynning hefur átt gott samstarf við deildir Sjúkrahússins á Akureyri, Heimahjúkrun HSN á Akureyri og Búsetudeild Akureyrarbæjar.  Það sem heillar mig mest við þetta starf er það að hitta fólk fyrir í þeirra umhverfi og á þeirra heimavelli. Fólk tekur frekar ákvarðanir um sína meðferð og er meira í samstarfi við heilbrigðisstarfsfólk þegar það er heima.

Hjúkrunarþjónusta í heimahúsum hefur eflst mikið á undanförnum árum en að mínu mati eru enn mörg sóknarfæri. Í framtíðinni væri óskastaðan að hér á SAk væri starfrækt líknardeild sem einnig væri eins og miðpunktur líknarhjúkrunar hér á svæðinu og starf Heimahlynningar væri nátengt henni. Fyrir utan þá þjónustu sem Heimahlynning sinnir nú þegar væri hægt að sinna ráðgjöf og símaþjónustu í mun meira mæli en nú er gert, þannig að einstaklingar utan Akureyrar og nágrennis gætu leitað þar ráða auk þess sem hjúkrunarfræðingar sem starfa á stofnunum eða í heimahúsum gætu einnig fengið stuðning og ráðgjöf.

Ég vonast til þess að þverfaglegt samstarf heilbrigðisstétta muni aukast til muna því að þannig verður þjónusta við sjúklinga og aðstandendur öflugri og samhæfðari. Það verður spennandi að sjá hvernig hjúkrun þróast og ég er viss um að hjúkrun í heimahúsum á eftir að eflast og aukast á komandi árum enda viljum við flest geta verið sem lengst heima. Hvað mína framtíð í starfi varðar finnst mér best að vera með opinn huga þó að mér finnist líklegt að ég starfi áfram á sama vettvangi. Sem unglingur var ég mjög óákveðin í því hvað ég ætlaði að gera í framtíðinni en ég var samt nokkuð viss um að ég ætlaði hvorki að vera hjúkrunarfræðingur né kennari og hér er ég ….nokkrum árum síðar, starfandi hjúkrunarfræðingur og sinni stundarkennslu í HA. Ég hef því lært að hvað áætlanir um komandi ár varðar hafa fæst orð minnsta ábyrgð.

 

 

 

 

Nýjast