Lífræn ræktun á Sólbakka garðyrkjustöð á Ósi í Hörgársveit undanfarin fimm ár
„Það kom aldrei annað til greina hjá okkur en að rækta lífrænt grænmeti. Okkur langaði til að bjóða upp á algjörlega hreina matvöru, þar sem enginn tilbúin áburður er notaður og enginn eiturefni. Við sjáum hins vegar að lífræn ræktun á undir högg að sækja, það eru nánast engir nýir að byrja og endurnýjun er afar lítil. Að rækta lífrænt á Íslandi er mjög krefjandi og við þyrftum ef vel á að vera að geta tækjavætt okkur mun meira,“ segir Sunna Hrafnsdóttir sem ásamt móður sinni, Nönnu Stefánsdóttur skrúðgarðyrkjumeistara og Andra Sigurjónssyni húsasmið stendur að lífrænni útimatjurtaræktun á jörðinni Ósi í Hörgársveit og gengur stöðin undir nafninu Sólbakki garðyrkjustöð. Sunna útskrifaðist af lífrænni braut Garðyrkjuskólans árið 2018.
„Nanna hefur starfað við garðyrkju í 35 ár og gekk með þennan lífræna draum í maganum lengi, ég smitaðist af henni og við í sameiningu hófum leit að jörð til að hefja útiræktun á lífrænum grænmeti,“ segir Sunna. Þau keyptu Ós árið 2016 eftir nokkurra ára leit að heppilegri jörð, en hún er vel staðsett, „það sem þó helst plagar okkur er vindur, en við hófumst strax handa við að setja upp skjólbelti og fyrstu trén eru farin að gefa okkur skjól.“
Á Sólbakka garðyrkjustöð er ræktað fjölbreytt úrval af grænmeti. Í upphafi var ætlunin að einblína á gulrætur og þegar mest var voru þau með um 1 hektara undir þær, „en við sáum fljótt að það er afar erfitt að rækta gulrætur á okkar landi,“ segir hún. „Við erum í algjörum moldarjarðvegi og okkar helsta vandamál er illgresi. Við gerðum ekkert á sumrin nema handreita illgresi þannig að við höfum smátt og smátt verið að minnka gulrætur í okkar ræktun og auka annað á móti.“ Annað grænmeti sem ræktað er á býlinu er spergilkál, blómkál, hnúðkál, hvítkál, grænkál, íssalat, pak choi, rauðrófur, rófur, kartöflur, sellerí og blaðlaukur.
Sjálfafgeiðslufyrirkomulagið hefur reynst mjög vel
Sunna segir að strax og jörðin var keypt fyrir 7 árum var byrjað á að afla sér vottunar frá Túni og tók aðlögun um tvö ár, en býlið fékk lífræna vottun árið 2018. „Við byrjuðum á að selja gulrætur úr litlum ísskáp fyrir utan braggann. Okkur langaði að koma á fót sjálfsafgreiðslu fyrirkomulagi eins og við höfðum séð víða erlendis, þar sem við treystum fólki til að koma hvenær sem er og versla sjálft. Það gekk vel með reksturinn á litla ísskápnum og við höfðum háleitari markmið með flottari búð þannig að árið 2021 fengum við styrk úr Uppbyggingarsjóði Norðurlands eystra til að gera upp gamalt lítið hús, sem áður var söluskúr í sundlaugargarðinum á Akureyri. Við gerðum þann skúr upp um sumarið og tókum hann endurbættan í notkun í ágúst og gátum þá boðið upp á betri og flottari búð,“ segir hún en á hverju ári er opnað um þegar uppskera er tilbúin sem vanalega er í byrjun ágúst. Opið er á meðan uppskeran er til, eða fram í lok október.
Sunna Hrafnsdóttir með fangið fullt af ferskum lífrænum rauðrófum
Búðin virkar þannig að í henni er kælir fyrir grænmetið. Kaupendur koma með peninga eða millifæra fyrir því sem það verslar en enginn starfsmaður er í búðinni og hún alltaf opin. „Fólk hefur verið mjög heiðarlegt og þetta fyrirkomulag gengur mjög vel.“ Gulrætur sem áður voru seldar í Samkaupsverslunum er nú aðeins seldar í litlu búðinni á Sólbakka eftir að ræktun var minnkuð. Sunna segir að mörg tonn af grænmeti fari í gengum búðina ár hvert og aðsókn aukist jafnt og þétt. „Við reynum að bæta úrvalið og nú í ár hefur það verið mjög fjölbreytt.“
Alltaf að læra eitthvað nýtt
Sunna segir að á hverju ári sé eitthvað nýtt sem þau læri varðandi ræktunina og landið, m.a. að sumir staðir á jörðinni henti vel til að rækta ákveðnar tegundir á meðan aðrir hlutar eru ófrjósamir eða á þeim myndist frostpollar. Það tekur tíma að læra á nýtt land og það hefur líka tekið okkur tíma að finna út hvað við getum ræktað og hversu mikið við ráðum við. Það er mjög gefandi að rækta matvæli sem maður veit að eru virkilega góð bæði fyrir fólkið og náttúruna, en þetta er krefjandi og við erum enn að finna okkar leið,“ segir Sunna.
Síðastliðinn vetur var ákveðið að reyna að dreifa tekjum sem koma inn í fyrirtækið með því að rækta sumarblóm en Nanna hefur frá sínum fyrri störfum mikla reynslu á því sviði. „Sumarblómaræktunin gekk mjög vel og reyndist skemmtileg viðbót við ræktununa þannig að við munum hafa sumarblómasölu aftur næsta vor,“ segir hún.