Leita að gömlum freon ísskáp sem þolir mikið frost
Amtsbókasafnið á Akureyri ætlar að setja upp svonefndan frískáp við bókasafnið og hefur auglýst ef gömlum ísskáp í leit að framhaldslífi.
„Við erum enn að bíða eftir ísskáp, en vandamálið sem við stöndum frammi fyrir er að venjulegir nýlegir ísskápar þola ekki að standa úti í meira en fimm stiga frosti. Við höldum enn í vonina um að einhver eigi gamlan freon ísskáp og væri til í að láta af hendi, en slíkir skápar þola þann fimbulkulda sem stundum herjar á okkur Akureyringar,“ segir Hrönn Björgvinsdóttir á Amtsbókasafninu á Akureyri.
Vilja efla hringrásarhagkerfið
Hrönn segir að frískápar séu almenningins ísskápar þar sem fyrirtæki og einstaklingar geta skilið eftir matvæli og hver sem er má taka sér mat úr skápnum. „Tilgangurinn er fyrst og fremst að sporna við matarsóun, fólk í veitingageiranum og verslanir standa oft frammi fyrir því að þurfa að henda mat sem þó er í fullkomnu lagi en kannski ekki söluhæfur. Eins kannast margir við það að eiga eitthvað í búrinu eða aftast í ísskápunum heima sem aldrei er notað,“ segir hún. „Með þessu framtaki vill bókasafnið efla hringrásarhagkerfið og leggja sitt af mörkum í loftslagsmálum, en eins og alkunna er þá er gríðarlegu magni af mat hent hér á landi.“
Skýli byggt yfir skápinn
Hrönn segir að mikilvægt sé að fólk geti gengið í ísskápinn á öllum tímum sólarhrings og þess vegna á hann að standa úti, fyrir framan safnið. „Það stendur til að hópur sjálfboðaliða komi saman og byggi skýli yfir skápinn þegar við höfum fengið hann,“ segir hún, en ef hvergi finnst ísskápur sem hentar norðlensku vetrarveðri muni þau sætta sig við nýlegri skáp sem settur verði út þegar fer að vora, en þyrfti að vera innanhúss yfir köldustu mánuði ársins.
Hrönn segir frískápa þekkjast um allan heim og í raun megi tala um alheimshreyfingu frískápa. Fyrsti og eini frískápurinn hér á landi stendur við Andrými á Bergþórugötu í miðborg Reykjavíkur, en í farvatninu er að koma upp slíkum skápum víðs vegar um landið.
/MÞÞ