Leikskólinn Álfasteinn í Hörgársveit stækkar í takt við fjölgun í sveitarfélaginu

Klippt á borðann. Frá vinstri Halldóra Elín Jóhannsdóttir deildarstjóri á nýju deildinni, Ljósálfade…
Klippt á borðann. Frá vinstri Halldóra Elín Jóhannsdóttir deildarstjóri á nýju deildinni, Ljósálfadeild, Freydís Elsa Bjarkadóttir klippti á borðann og þá Hugrún og Snorri sem veittu aðstoð við verkið. Myndir Álfasteinn

Nýjasti hluti leikskólans Álfasteins í Hörgársveit var tekin í  notkun á dögunum, en um er að ræða ungbarnadeild sem fengið hefur nafnið Ljósálfadeild. Við vígslu deildarinnar var einnig tekin í notkun ný starfsmannaaðstaða. Með þeirri stækkun sem nú var tekin í notkun er pláss fyrir 90 börn á leikskólanum. Þau eru nú rétt yfir 60 talsins. Alls starfa 25 manns hjá Álfasteini í 23 stöðugildum. Kvenfélagið í Hörgársveit gaf leikskólanum 500 þúsund krónur að gjöf til leikfangakaupa í tilefni af stækkuninni.

Leikskólinn Álfasteinn tók fyrst til starfa sumarið 1995, í 114 fermetra rými og pláss fyrir 16 börn, starfmenn voru þrír. Leikskólastjóri var Rannveig Oddsdóttir en Hugrún Hermannsdóttir tók við haustið 1997 og hefur gengt starfinu síðan. Hún segir að í fyrstu hafi fá börn dvalið allan daginn eða alla daga á leikskólanum en smám saman hafi þörfin aukist og börnum fjölgað

Þegar komið var fram á árið 2006 var farið að þrengja verulega að starfseminni og engin starfsmannaaðstaða var fyrir hendi.  Til að mæta brýnni þörf var byggð 160 fermetra viðbygging og hún tekin í notkun í mars 2007. Jókst þá fjöldi barna upp í 32.

„Það fylltust fljótlega öll rými og næstu árin var leikskólinn fullsetinn,“ segir Hugrún. Í kringum árin 2013 og 14 fór börnum í leikskólanum að fækka og kom upp umræða um að búa til deild í kjallara Þelamerkurskóla  en horfið frá þeim áformum enda jókst aðsókn á ný og árið 2017 voru öll pláss nýtt og biðlisti hafði myndast. Á ný var ráðist í stækkun, nú um 110 fermetra og við það fékkst betri starfsmannaaðstaða og stærri forstofa fyrir börnin.  Verkið gekk fljótt og vel fyrir sig, skóflustunga tekin 1. mars 2019 og verki lauk 5. ágúst sama ár. Þá var einnig unnið að endurbótum á eldra starfsmannarými og útbúin deild fyrir 3ja til 6 ára börn. Leikskólinn var þá orðin tveggja deild, tæplega 400 fermetrar að stærð og börnin orðin 44 talsins.

Fjölgun íbúa og ráðist í stækkun leikskólans

„Á þessum tíma var orðið ljóst að fram undan væri mikil fjölgun íbúa í sveitarfélaginu og að stækka þyrfti leikskólann með því að bæta við einni deild. Hafist var handa við þá framkvæmd í mars árið 2020 og byggð upp 160 fermetra viðbygging við leikskólann. Ári síðar var þriðja deildin tekin í notkun ásamt íþróttasal sem hefur notið mikilla vinsælda,“ segir Hugrún, en á þeim tíma var leikskólinn 544 fermetrar að stærð, deildirnar þrjár og börnin orðin 53 auk þess sem starfsfólki hafði einnig fjölgað.

Það var svo í fyrra sumar sem hafist var handa við byggingu fjórðu deildarinnar við leikskólann, nýrrar ungbarnadeildar sem opnuð var formlega um liðna helgi. Sú ber nafnið Ljósálfadeild, en fyrir eru Dvergadeild, Trölladeild og Álfadeild. Byggingar leikskólans eru nú tæplega 900 fermetrar.

„Með þessari nýjustu stækkun eru dvalarpláss hjá okkur fyrir 90 börn, þau eru nú ríflega 60 þannig að það er pláss fyrir góðan hóp til viðbótar,“ segir Hugrún. Samhliða viðbyggingum var leikskólalóðin teiknuð upp á nýtt og framkvæmdum skipt upp í þrjá hluta sem öllum er lokið.

Með sól í hjarta

Einkunnarorð leikskólans Álfasteins eru „Með sól  í hjarta“ og segir Hugrún að á leikskólanum sé unnið sé eftir hugmyndarfræði Heilsustefnu Unnar Stefánsdóttur og Jákvæðs aga. Þá nefnir hún að leikskólinn sé grænfánaskóli og skógurinn umhverfis hann sé nýttur sem leiksvæði. „Við erum líka með Lubba sem finnur málbein, en það er málörvunar- og hjóðanámsefni auk þess að nota stærðfræðiverkefnið MÍÓ, en allt þetta kennum við í gegnum leikinn sem er undirstaða alls á Álfasteini,“ segir hún.

Axel Grettisson oddviti Hörgársveitar, Jóhanna María Oddsdóttir formaður  fræðslunefndar, Snorri Finnlaugsson sveitarstjóri og Hugrún Hermannsdóttir leikskólastjóri

Mynd frá Álfasteini

Frá vígslu nýju byggingarinnar 

Nýjast