Leiðin ofan í fjöru opnuð með rás í gegnum garðinn

„Við erum smátt og smátt að ná því að byggja upp gott svæði til útivistar á Eyrinni,“ segir Björg Erlingsdóttir sveitarstjóri í Svalbarðsstrandahreppi. Framundan eru framkvæmdir við gerð hjólabrautar og göngustíga, setja á upp bekki hér og hvar, aðstaða verður fyrir kajaka með rás sem gerð verður í gengum sjóvarnargarðinn. „Hér verður hægt að staldra við og njóta umhverfisins.“

Sjóvarnargarðurinn frá Vitanum á Svalbarðseyri lét mjög á sjá í miklum vestan veðri  sem gekk yfir síðla árs 2019 og miklum ágangi sjávar í öðrum hvelli árið 2020. Til stendur að lagafæra varnargarðinni og sér Vegagerðin um þann þátt auk þess sem hreppurinn er þátttakandi að hluta til í kostnaði. Verkið var boðið út og var tilboði frá Nesbræðrum tekið og eru þeir í startholum að hefja framkvæmdir.

Oft erfitt að komast í góða fjöru

Björg segir að fram hafi komið hugmynd um að gera rás í gegnum sjóvarnargarðinn en þannig ættu til að mynda kajakræðarar greiðan aðgang að fjörunni sem og einnig þeir sem kæmu úr hinni áttinni og vildu eiga góða stund í fjörunn. „Greiður aðgangur að fjörum er ekki lengur fyrr hendi hvarvetna og oft erfitt að komast í góða fjöru,“ segir hún. Með rásinni við varnargarðinn verður heldur betur bætt úr því.

Ungmennafélagið Æskan í Svalbarðsstrandahreppi hefur frumkvæði að því að útbúa hjólabraut sem verður í kringum tjarnir sem eru á eyrinni við Svalbarðseyri og munu félagsmenn leggja til alla vinnu við verkefnið en sveitarfélagið greiðir efniskostnað.

Allt klárt í vor

Sveitarfélagið mun einnig útbúa bílastæði fyrir þá sem koma að á bíl og skammt frá þeim verða sett upp útiþrektæki. Loks má nefna að gefin verða út kort með göngu- og hjólaleiðunum og inn á þau merkt vegalengd þannig að fólk getur valið hversu langt það vill fara. Björg segir að framkvæmdir hefjist innan tíðar og er þess vænst að allt verði klárt í vor. „Þetta verður mjög fallegt og aðlaðandi svæði. Heimamenn munu án efa nýta það mikið fyrir sína hreyfingu eða njóta lífsins. Við gerum einnig ráð fyrir að nærsveitungar og ferðalangar staldri við hjá okkur og njóti þess sem svæðið hefur upp á að bjóða,“ segir Björg.

/MÞÞ

Nýjast