Leggja til upplýsingu á Húsavík

Húsavík, samsett mynd.
Húsavík, samsett mynd.

Á fundi sveitarstjórnar Norðurþings fyrir skemmstu voru teknar fyrir tvær tillögur um upplýsingu.

Annars vegar var tillaga meirihlutans um að kannaðir verði möguleikar á uppbygging á upplýstri göngu- og hjólaleið milli Húsavíkur og iðnaðarsvæðisins á Bakka og málinu yrði vísað til skipulags- og framkvæmdaráðs til frekari úrvinnslu. Tillagan var samþykkt samhljóða.

Í bókun segir að um 150 einstaklingar starfi í verksmiðju PCC Bakki Silicon á iðnaðarsvæðinu á Bakka og vinnur sveitarfélagið að frekari uppbyggingu í anda grænna iðngarða á svæðinu. Leiðin milli þéttbýlisins og iðnaðarsvæðisins er um 2 km en PCC Bakki Silicon er einn stærsti vinnustaðurinn í sveitarfélaginu.

Myrkur á Jónasartúni

Þá var tekin fyrri tillaga Hjálmars Boga Hafliðasonar um að brekkan við Hjarðarholtstún á Húsavík sem kallast gjarnan Jónasartún verði upplýst enda mikið leiksvæði ýmist snemma dags eða seinnipart og fram á kvöld.

„Á túninu eða í brekkunni renna börn og ungmenni sér fram eftir kvöldi og kjörið að lýsa svæðið upp til að gera upplifunina enn skemmtilegri og um leið öruggari. Verkefnið er ekki kostnaðarsamt og ætti að vera auðvelt að koma til framkvæmda.
Börn og ungmenni óskuðu eftir samtali við forseta og óskuðu eftir lýsingu og liggur tillagan því fyrir,“ segir í tillögunni.

„Jónas í Hjarðarholti átti einu sinni tún undir brekku sem kallað var Jónasartún. Gjarnan er talað um þetta sem aparóló í dag. Íbúar, í þessu tilfelli börn eiga að geta nálgast kjörna fulltrúa, okkur níu sem sitjum hér, með sínar hugmyndir sem við metum og skoðum hvort eigi að framkvæma. Stundum eru þetta stórar hugmyndir og kosta alveg ofboðslega mikið en stundum er þetta pínulítil hugmynd sem kostar eiginlega ekki neitt og mjög auðvelt að framkvæma. Þetta er minniháttar og jafnvel þyrfti ekki að koma með risastóra tillögu um þetta. Ég skora á kjörna fulltrúa, varðandi þessi litlu verkefni sem gera samfélagið okkar betra, að koma þeim áfram til starfsfólks sveitarfélagsins eða sem tillögu inn á sveitarstjórnarfundi. Við eigum að gera meira af því til að gleðja og upphefja okkur sem samfélag,“ sagði Hjálmar Bogi.

Aldey Unnar Traustadóttir, V-lista og Áki Hauksson M-lista tóku einnig til máls og sögðu tillöguna afar góða en vildu engu að síður láta kostnaðarmeta framkvæmdina. Lögðu þau til að málinu yrði vísað til skipulags- og framkvæmdaráðs og verkefnið verði kostnaðarmetið þar. Tillagan var samþykkt með atkvæðum allra nema Hjálmars Boga sem sat hjá.

Nýjast