Launamunur kynjanna 0,6% konum í vil í Norðurþingi
Jafnlaunastefna Norðurþings var samþykkt þann 28. september 2023 í Sveitarstjórn Norðurþings en meginmarkið hennar er að allar launákvarðanir skulu vera gegnsæjar, málefnalegar, skjalfestar og rekjanlegar.
Eins og kveðið er á um í stefnunni verða framkvæmdar árlegar launagreiningar sem er liður í því að vakta og mæla þá þætti sem hafa áhrif á launamyndum.
Launagreining er kerfisbundin úttekt á launum og kjörum hjá starfsfólki og liður í að vakta og mæla þá þætti og viðmið sem hafa áhrif á launamyndun. Niðurstöður eru nýttar til að meta kynbundinn launamun og mælikvarðar úr niðurstöðum eru nýttir til að setja markmið og meta tækifæri til umbóta í jafnlaunamálum.
Launamunur konum í vil
Niðurstöður launagreiningar sem unnin var í október sl. sýndi að launamunur kynjanna hjá Norðurþingi er 0,6% konum í vil.
Greiningin byggir á starfsmatskerfi sveitarfélaganna. Starfsmatskerfið er greiningartæki sem er notað til að meta með kerfisbundnum hætti þær kröfur sem störf gera til starfsmanna. Kerfið byggir á hlutlægum viðmiðum sem notuð eru til að bera saman störf í samræmi við þær kröfur sem í störfunum felast, óháð hæfni þeirra sem þau vinna. Markmið starfsmats er að tryggja að starfsmönnum séu ákvörðuð laun með eins málefnalegum og hlutlægum aðferðum og hægt er og á að leiða til þess að störfum sé raðað þannig til grunnlauna að þau séu hin sömu fyrir störf sem metin eru jafnkrefjandi, óháð starfsstöðum, stéttarfélagi eða kyni.