Laufabrauðið hennar ömmu

Heimagert laufabrauð er á mörgum íslenskum heimilum nauðsynlegur hluti af jólunum
Heimagert laufabrauð er á mörgum íslenskum heimilum nauðsynlegur hluti af jólunum

Laufabrauðið hennar ömmu

Margir eiga það til að mikla það fyrir sér að búa til laufabrauð heima fyrir og kaupa kökurnar því tilbúnar úti í búð. Það er hins vegar mun minna mál að gera þær frá grunni sjálfur en marga grunar og gerir þessa vinsælu jólahefð mun dýrmætari fyrir vikið. Það skemmir svo ekki fyrir að heimagert laufabrauð bragðast nú langoftast mun betur.

Hráefni

500 g hveiti

40 g smjörlíki

1 msk. sykur

½ tsk. salt

1 tsk. lyftiduft

2½ - 3 dl mjólk

Steikingarfeiti, hægt að nota laufabrauðsfeiti, palmín-feiti eða blanda því hvoru tveggja saman.

Aðferð

Mjólk og smjörlíki er hitað saman. Næst er öllum þurrefnum blandað saman og blöndunni hrært saman við smjörlíkið og mjólkina í skál. Þá ætti deigið að vera komið í kúlu. Þá má leggja rakt, heitt viskastykki yfir deigið til að halda því röku.

Því næst er skorinn bútur af deiginu til að fletja út, þykktin fer eftir smekk. Margir vilja hafa kökurnar sem þynnstar. Næst eru kökurnar skornar, gott er að nota disk og skera eftir honum. Stærðin á kökunum fer eftir stærð steikarpottsins.

Næst eru kökurnar skornar út og þar eru allskyns útfærslur í boði. Hægt er að nota laufabrauðsjárn en það er alls ekki nauðsynlegt. Mikilvægt er að pikka kökurnar vel til að koma í veg fyrir loftbólur þegar þær eru steiktar.

Næst er að steikja kökurnar, í það er hægt að nota laufabrauðsfeiti, sniðugt er að blanda saman við hana palmín-feiti því laufabrauðsfeitin getur verið mjög lin. Kökurnar eru steiktar á báðum hliðum þar til þær verða ljósbrúnar.

Gott er að pressa kökurnar á eldhúspappír eftir að þær eru steikar, t.d. með disk eða pottloki. Best er að bera laufabrauðið fram með smjöri og borða það samhliða jólamatnum.

Uppskriftin dugar í u.þ.b. 50 kökur en fer þó eftir stærð og þykkt.

 

Ömmupartar

Sniðugt er að nýta steikingarfeitina sem best og þá er hægt að henda í ömmuparta sem gott er að eiga í frystinum til að grípa í.

Langamma undirritaðrar kom upp með þessa uppskrift sem hefur notið mikilla vinsælda í fjölskyldunni og undantekningarlaust verið gerð samhliða laufabrauðinu.

 

Hráefni

500 g hveiti eða heilhveiti

1 tsk. lyftiduft

½ tsk. natrón

1 dl súrmjólk

½ tsk. salt

1-2 tsk. sykur

Mjólk eftir þörfum

 

Aðferð

Súrmjólk og natrón blandað saman. Næst er restinni af þurrefnunum bætt út í ásamt mjólk eftir þörfum. Deigið er síðan flatt út og haft nokkuð þykkt (1/2 cm u.þ.b.).

Deigið er skorið í tígla eða í það form sem hver og einn kýs. Gott er að pikka deigið með gaffli. Næst eru partarnir steiktir sem er tilvalið að gera á eftir laufabrauðinu.

Best er að geyma partana í frosti svo þeir haldi sem mestum gæðum.

 

Ómissandi Toblerone-jólaís

Þegar búið er að háma í sig dýrindis jólamat er nauðsynlegt að hafa góðan eftirrétt tilbúinn. Þennan gómsæta jólaís tekur enga stund að græja og gerir jólaupplifunina enn betri.

 

Hráefni

6 egg

1 bolli ljós púðursykur

½ lítri þeyttur rjómi

150 g brytjað Toblerone

50 g brætt Toblerone

½ dl Baileys

1 tsk.vanilludropar

 

Aðferð

Gott er að byrja á því að þeyta rjómann og geyma inni í ísskáp. Egg og púðursykur er svo þeytt vel saman. Ef sama skál er notuð þarf að passa að hún sé vel þrifin á milli. Restinni af hráefnunum er svo hrært saman við.

Rjómanum er blandað saman við með sleif svo hann falli sem minnst. Að lokum er ísinn settur í mót og inn í frysti.

Nýjast