Látum ekki traðka á okkur
Góður og markviss undirbúningur er lykillinn að kröftugri kjarabaráttu. Samstaða skilar árangri, það hefur margsinnis sýnt sig. Miðað við svör vinnuveitenda í tengslum við komandi kjaraviðræður getur farið svo að kjarabaráttan verði harðari en oft áður og við bætist að laun og bónusar margra forstjóra fyrirtækja hafa hækkað um meira en þreföld lágmarkslaun verkafólks á mánuði. Þetta er auðvitað ólíðandi. Verkafólk getur heldur ekki sætt sig við úrskurði kjararáðs til helstu stjórnenda hjá ríkinu og sömu sögu er að segja um óhóflegar hækkanir launa í bankakerfinu og víðar.
Það ríkir góðæri í landinu og verkafólk á að njóta þess, ekki bara topparnir í þjóðfélaginu.
Félagsleg samstaða
Stærsta verkefni Einingar-Iðju á þessu ári – eins og alltaf - er að vinna að sameiginlegum hagsmunum félagsmanna, með því að semja um kaup og kjör, bættan aðbúnað við vinnu og gæta þess að ekki sé gengið á rétt þeirra.
Framundan er mikil vinna við að móta kröfugerð félagsins vegna komandi viðræðna um gerð nýs kjarasamnings, því þarf að nýta tímann vel. Innviðir Einingar-Iðju eru sterkir, það kemur ágætlega fram í stórri viðhorfs- og kjarakönnun sem Gallup gerði fyrir félagið í lok síðasta árs, þar sem yfirgnæfandi hluti svarenda var ánægður með starfsemi og þjónustu. Samkvæmt könnuninni geta félagsmenn verið stoltir af félaginu og öflugri starfsemi þess.
Dagsett aðgerðaráætlun
Í samninganefnd Einingar-Iðju eru 50 fulltrúar. Fyrsta verkefni nefndarinnar verður að skipuleggja vinnuna við mótun kröfugerðar félagsins. Formleg vinna hefst þann 4. apríl og unnið verður samkvæmt dagsettri aðgerðaráætlun. Þann 18. september er ráðgert að kröfugerðin verði endanlega samþykkt í nefndinni.
Höfuðmáli skiptir að ná til sem flestra félagsmanna, þannig að mörg og ólík sjónarmið komi fram. Boðað verður til félagsfunda, fundi með einstökum starfsgreinum og ítarleg skoðanakönnun gerð. Ég hvet alla félagsmenn til þess að taka þátt í undirbúningnum og hafa þannig áhrif á kröfugerðina. Þegar hún liggur fyrir, verður tekin afstaða til þess hvort félagið ákveður að vera í samfloti með öðrum félögum í Starfsgreinasambandi Íslands.
Samstaða skilar árangri
Á aðalfundi félagsins í síðustu viku var samþykkt ályktun, þar sem mótmælt er harðlega þeirri stéttaskiptingu og siðblindu sem skekur þjóðfélagið í dag. „Fundurinn hvetur öll stéttarfélög til að vinna vel að sinni kröfugerð og búa sig undir harðar deilur næsta vetur. Verkafólk getur hvorki né vill láta traðka svona á sér. Það verður að sýna atvinnurekendum og ríkisvaldi að nú sé nóg komið,“ segir í ályktun aðalfundarins.
Það getur ekki verið eðlilegt að góðærið nái aðallega til þingmanna, forstjóra og annars „sjálftökuliðs.“
Stöndum saman, þannig náum við árangri !
-Björn Snæbjörnsson, formaður Einingar-Iðju