20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Látum bjartsýni og samkennd varða veginn
Eftir að COVID-19 veiran varð til stöndum við berskjölduð og höfum þurft að hafa vaðið fyrir neðan okkur í smitgátinni. Sumir óttaslegnir, aðrir kærulausir. Kæruleysi sumra hefur aukið á ótta annarra, enda eykur kæruleysi smithættu. Og veiran hættulegri sumum en öðrum. Þó reyndar hafi líka komið í ljós að við vitum þó aldrei fyrirfram hver veikist alvarlega og hver ekki.
Okkur heilbrigðisstarfsfólki var strax í upphafi nánast bannað að fara úr landi. Fljótlega var ekki talið óhætt að við færum í búð. Hraði breyttra viðmiða hefur verið í takt við hraða veirunnar um heiminn. Í fyrstu þótti óhugsandi að splitta upp teyminu okkar í Heimahlynningu og vinna sem mest að heiman en slíkt fyrirkomulag átti örskömmu síðar alls staðar við. Fyrirvaralaust varð að kollsteypa verklagi, veita ráðgjöf og leita lausna allan sólarhringinn. Ótti við að smitast og smita veikt fólk eða fjölskylduna varð fylgifiskur vinnunnar. Einnig mögulegur skortur á hlífðarfatnaði. Að stunda líknar- og lífslokahjúkrun í heimahúsum varð skyndilega mun flóknara en áður enda mikið í húfi að bera ekki veiruna í þau sem þjónustuna þiggja. Það var óhugsandi í fyrstu að klæðast hlífðarfatnaði út við bíl en varð svo raunin. Verst í stórhríðinni sem gerði sig heimankomna og tók ekkert tillit til heimsfaraldurs. Í eitt skiptið hélt ég að allt myndi fjúka úr bílskottinnu á meðan ég reyndi að tjónka við hurðarfleka og slopp á sama tíma. Ekki skemmtilegt þá en minningin kallar þó fram bros nú við upprifjun.
Það er óþægilega ópersónulegt að hjúkra við lífslok í hlífðarfatnaði og með maska. Það er erfitt að mega ekki nálgast aðstandendur með snertingu við sjúkrabeð og andlát. Samkennd, nánd og snerting er svo samofin líknarhjúkrun. Faðmlagið ómissandi og tómarúmið milli fólks verður áþreifanlegt þegar ekki má snerta. Eins og stórt holrúm sem enginn má stíga inn í. Þetta minnti mig fyrst helst á upplifun af heimsókn í öryggisfangelsi í Bandaríkjunum. Við þessar gjörólíku aðstæður, sem eiga það þó sameiginlegt að halda þarf fjarlægð, og snerting er ekki leyfð, reynir sem aldrei fyrr á hughreystandi orð. Og það er þá eins gott að eiga þau til, leysa þau úr læðingi og gefa þeim frelsið sitt. Það reynir líka jafnframt og ekki síður á gefandi augnsamband. Því þegar maski hylur andlit neðan augna þá eru það augun sem hafa allt að segja. Augnsamband skilnings og samkenndar er það sem gildir og með því má mörgu miðla.
Aukið álag við hjúkrun er þó hjóm eitt hjá reynslu þeirra sem hjúkrunina þiggja. Skuggi smithættu og heimsóknarbanns bætist við veikindin sem fyrir eru. Sorgin nógu þung og flókin ein og sér, þó ekki komi til ótti við veirusmit og takmarkanir á mögulegum stuðningi. Og einungis 20 syrgjendur við jarðarför. Okkur hefði þótt það óhugsandi í upphafi árs. Viðmið breytast og allt verður afstætt. Við höfum sem betur fer mikla aðlögunarhæfileika mannfólkið, það höfum við sýnt undanfarnar vikur. Það breytir því hins vegar ekki að margt hefur verið sárt, afar sárt. Og að úr ýmsu er að vinna. Þar kemur samkenndin sterk inn. Við þurfum öll að geta hlustað, öll að geta verið til staðar, fyrir þau sem þurfa. Og varast samanburð, því reynslan af veikindum eða sorg er fyrir hverjum og einum það sem hún er, burtséð frá upplifun annarra.
Sé hugsað út fyrir landsteinana þá erum við þó lánsöm þegar á heildina er litið. Þar sem markaðsöfl og pólitík hafa fengið að ráða umfram fagþekkingu, og þar sem fátækt, þekkingarskortur og þéttbýli skapa kjöraðstæður fyrir vírusinn að valsa um, eru afleiðingarnar hörmulegar. Ástandið þar á ekkert skylt við þær raskanir sem við búum við og ég vona einlæglega að úr fari að rætast eftir því sem þekking á skaðvaldinum eykst. „Hinn venjulegi Bandaríkjamaður þarf ekki að hafa áhyggjur af þessum vírus“ fullyrti forseti Bandaríkjanna drýgindalega, rétt eins og það væri í lagi að aðrir en „venjulegu“ Bandaríkjamennirnir lægju í valnum. Sorglegt viðhorf í meira lagi þegar önnur eins ógn steðjaði að mannkyninu. Við þurfum á víðsýni, þekkingu og alþjóðlegri samvinnu að halda. Og ég vona að faraldurinn hafi aukið með okkur auðmýkt. Að við treystum okkur til að standa berskjölduð frammi fyrir þeirri staðreynd að við ráðum ekki við allt. Móðir náttúra fer sínar leiðir. Við getum hins vegar valið hver viðbrögð okkar verða. Við getum valið að standa saman og rækta með okkur auðmýktina, seigluna og hugrekkið sem við þurfum öll á að halda núna. Við þurfum að vera á verði út af auknu heimilisofbeldi og tilkynna það en við þurfum líka að ávarpa ofbeldismennina. Þeirra er ábyrgðin. Þið sem beitið ofbeldi, ykkar er alltaf ábyrgðin. Leitið ykkur hjálpar áður en þið misþyrmið ykkar nánustu. Heimsfaraldur afsakar ekki ofbeldisverk ykkar, frekar en fjárhagsáhyggjur eða nokkuð annað. Að baki ofbeldi býr vanlíðan sem þarf að uppræta. Gangist við þeirri vanlíðan og vinnið úr henni með þeirri aðstoð sem þarf, því það er þess virði, fyrir ykkur og aðra. Nú á óvissutímum þurfa börn og ungmenni stuðning sem aldrei fyrr. Verum uppbyggjandi og til staðar fyrir þau, þeirra er framtíðin.
Staðreyndin er nefnilega sú að við erum öll undir auknu álagi og það er einmitt núna sem við þurfum öll á góðvild hvers annars að halda, ung sem aldin. Heiðrum minningu þeirra sem létust með því að virða lífið og gera betur. Ræktum með okkur samkennd þvert á kynslóðir og finnum seigluna vaxa um leið, seigluna sem þarf til að koma okkur á skrið aftur, efla náttúruvæna nýsköpun og finna snjallar lausnir. Hlúum að íslensku matarauðlindinni með blómlegum landbúnaði, ræktum meira, hjálpumst að við að snúa hjólum atvinnulífsins aftur í gang. Framsýnt fólk í ferðaþjónustu bjargaði miklu eftir hrun, nú þarf það á okkur að halda. Sköpum svigrúm fyrir alls konar sprota að vaxa á sviði hönnunar og hugvits. Við eigum vissulega langt í land eftir þetta áfall en með samstöðu kynslóðanna erum við mikils megnug. Ég trúi því að ýmislegt eigi eftir að verða betra í samfélaginu eftir faraldur en það var fyrir hann. Látum bjartsýni og samkennd varða veginn.
Ég skora á æskuvinkonu mína Rannveigu Karlsdóttur framhaldsskólakennara og þjóðfræðing að skrifa næsta pistil.