13.nóvember - 20.nóvember - Tbl 46
Landslið í skógarhöggi að störfum í Vaðlareit
„Það hefur gengið mjög vel og allar áætlanir staðist,“ segir Ingólfur Jóhannsson framkvæmdastjóri Skógræktarfélags Eyfirðinga en í liðinni viku ræsti „landslið“ skógarhöggsmanna keðjusagir sínar og hóf að vinna sér leið þvert í gegnum Vaðlareit. Lokið var við að höggva stíginn í byrjun vikunnar og síðustu daga hafa þeir unnið við snyrtingar út fyrir stígasvæðið. „Við verðum svo í því þó nokkurn tíma að keyra út trjáboli og greinar og munum vinna það verkefni í samstarfi við jarðverktaka, Nesbræður,“ segir Ingólfur. Skógræktarfélagið sér um verkefnið og réð til sín alla helstu skógarhöggsmenn landsins, þeir eru í allt 11 talsins komu víða að af landinu til að ryðja skóginn á sem skemmstum tíma þannig að hægt sé að halda dampi í stígagerðinni.