Landsbankinn tekur yfir stóran hluta miðbæjar Akureyrar

Eignarhaldsfélag Landsbankans hefur tekið yfir fasteignir Hótels Sólar ehf.

Félagið og önnur tengd félög, hafa á undanförnum árum keypt margar fasteignir í miðbæ Akureyrar, meðal annars Hafnarstræti 67 en þar er nú starfrækt hótel. Þá á félagið stóra fasteign við Kjarnaskóg, en þar var rekið dvalarheimili. Sömuleiðis á félagið marga tugi íbúða í miðbæ Akureyrar, skrifstofuhúsnæði og verslunarhúsnæði.

Til sölu

Með þessari yfirtöku er ljóst að Landsbankinn er orðinn einn stærsti eigandi fasteigna í bænum, en bankinn hyggst selja eignirnar eins fljótt og auðið er. Brunabótamat þeirra er um 800 milljónir króna.

7000 fermetrar

Eftir því sem Vikudagur kemst næst er um að ræða samtals í kringum 7000 fermetra húsnæði, stærsta eignin er við Kjarnaskóg, um 2300 fermetrar. Björn Guðmundsson hjá fasteignasölunni Byggð á Akureyri segir að þessi staða hafi varla mikil áhrif á fasteignamarkaðinn. „Mér sýnist um að ræða mikið af góðum eignum í þessu tilviki og eflaust er hægt að fá ágætt verð fyrir þær á réttum tíma.“

Svo virðist sem Landsbankinn hafi ekki yfirtekið allar fasteignir sem eru í eigu Hótels sólar ehf., eða tengdra fyrirtækja.

Tækifæri

Oddur Helgi Halldórsson bæjarfulltrúi L-listans á Akureyri segir miður hvernig fór fyrir Hótel Sól ehf. „ Ég lít svo á að ákveðin tækifæri skapist núna fyrir fjárfesta, hérna á Akureyri hefur verið uppgangur og þess vegna getur verið hagstætt að kaupa fasteignir í bænum.“

karleskil@vikudagur.is

 

Nýjast