20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Lambadagatal komið út í tíunda sinn
Lambadagatal Ragnars Þorsteinssonar sauðfjárbónda og ljósmyndara með meiru í Sýrnesi Aðaldal er nú komið út í tíunda skiptið. Ragnar tekur myndirnar á sauðfjárbúi sínu í Sýrnesi og allar myndirnar í lambadagatölin eru teknar á sauðburði frá árinu áður þ.e.a.s. á Lambadagatali 2024 eru myndirnar teknar á sauðburði 2023 og endurspegla því einnig veðurfarið á þeim árstíma. Hann sér að auki um uppsetningu og hönnun dagatalsins, sem og fjármögnun þess og sölu. Dagatalið hefur verið fjármagnað á Karolinafund.is síðastliðin átta ár þar sem þau eru keypt í forsölu.
„Þetta átti nú bara að vera til gamans svona einusinni, prufa að gefa út dagatal með ljósmyndum af ómörkuðum unglömbum og forvitnast um hvort einhverjir hefðu áhuga fyrir ljósmyndum af íslensku sauðfé og þetta hefur eiginlega verið hreint ævintýri síðan,” segir Ragnar. Hann stofnaði Fésbókarsíðuna facebook.com/lambidmitt og fyrsta upplagið seldist upp á örfáum dögum. Fylgjendur síðunnar er nú orðnir rúmlega fimmtánhundruð og hún er mikið skoðuð.
Selt beint frá býli
„Maður hittir og á í samskiptum við fólk útum allt land, sem er bara skemmtilegt og svona markaðssetning er ekki möguleg nema hafa netið og samfélagsmiðla. Móttökurnar við þessari hugmynd hafa verið frábærar ég fengið mikið lof fyrir fallegar ljósmyndir og útlit dagatalsins. Það er orðinn allnokkur hópur fólks sem kaupir og hefur keypt dagatölin frá upphafi. Salan fer eingöngu fram hér ,,beint frá býli” ég prófaði að koma þessu í búðir en þær þurfa bæði háa álagningu og allskonar vesen, þannig að því dæmi var sjálfhætt.”
Ragnar segir megin tilgang útgáfunnar fyrst og fremst þann að breiða út fegurð og fjölbreytileika íslensku sauðkindarinnar og rifja upp að án sauðkindarinnar sem hefur séð okkur Íslendingum fyrir mat og hita frá landnámstíð, værum við tæplega til sem þjóð í dag.
Krefjandi en skemmtilegt að mynda lömb
„Það er bæði krefjandi og tímafrekt að taka myndir af lömbum eins og öðru ungviði. Þau eru líka mjög sjálfstæð með sterka og fjölbreytta persónueiginleika eins og við mannfólkið og fylgjast vel með því sem er í gangi og eru eiginlega alltaf til í að standa kyrr, liggja og brosa á meðan myndatökunni stendur.
Eins og gefur að skilja er sauðburður í fullum gangi á þessum tíma og því oft ekki mikill tími aflögu til annara verka. Myndatakan er þó mjög skemmtileg og það er endurnærandi á sál og líkama að leggjast út á tún og taka myndir af lömbunum.
Lömbin eru ýmist mynduð með mæðrum sínum eða ein og þá þarf að vera búið að vinna traust þeirra svo þau verði ekki skelkuð og hlaupi í burtu,“ segir Ragnar.
Stærð er dagatalsins er A4, portrait, 13 bls. prentað öðru megin, og framleitt á Íslandi. Dagatalið höfðar til til allra, stórar myndir af saklausu fallegu ungviði auk þjóðlegs fróðleiks. Ragnar segir dagatalið prentað í takmörkuðu upplagi. „Þetta er ódýr og falleg gjöf sem gleður á hverjum degi í heilt ár.“
Allir hefðbundnir helgi- og frídagar eru merktir á dagatalið einnig; fánadagar, fæðingardagur forseta, koma Jólasveinanna, eldaskildagi, gömlu mánaðaheitin, tunglgangur og ýmsir dagar er tengjast sögu lands og þjóðar. Hver mánuður er með eina mynd og að þessu sinni er dagatalið tileinkað mæðrum með lömbin sín auk hefðbundinna lambamynda.
Í tilefni af 10 ára útgáfuafmæli fylgir eitt lambakort/umslag með hverju dagatali og það er eingöngu selt ,,beint frá býli” í gegnum fésbókarsíðuna og eða á netfang eða símanúmer Ragnars.