20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Lagt til að fasteignir á Skjaldarvík verði auglýstar sem fyrst til leigu
Lagt er til að fasteignir á jörðinni Skjaldarvík í Hörgársveit verði auglýstar til leigu. Fyrir liggur minnisblað um Skjaldarvík og var fjallað um framtíðaráformin varðandi Skjaldarvík á fundi Umhverfis- og mannvirkjaráðs. Sviðsstjóra var falið að vinna málið áfram og auglýsa fasteignirnar til leigu.
Stefán Jónsson gaf Akureyrarbæ jörðina Ytri- og Syðri Skjaldarvík á sínum tíma, en þar hafði um árabil verið rekið dvalarheimili og var það ósk gefanda að svo yrði áfram. Ári 1998 hætti Akureyrarbær rekstri heimilisins, þar sem ástand eignanna uppfyllti ekki þær kröfur sem gerðar voru til slíkrar stofnunar og var starfsemin flutt í Kjarnalund. Undanfarin ár hefur verið rekið gistiheimili í Skjaldarvík og þar er einnig Hlíðarskóli. Gistiheimilið hætti rekstri árið 2022.
Spennandi byggingarland til framtíðar
Hluti af jörðinni hefur verið leigð sem beitarland. Alls hefur jörðin landrými upp á um 189 hektara en ræktað land er rúmlega 61 hektari. Jörðin á land að sjó, strandlengjan er um 1,6 kílómetrar að lengd og þar sjá menn mikil tækifæri til framtíðar. „Jörðin er mjög mikilvæg fyrir framtíðaruppbyggingu til lengri tíma litið og bíður upp á marga möguleika. Svæðið sem byggingarnar standa á er/verður spennandi bæði sem byggingarland og fyrir aðra landnotkun þegar kemur að skipulagningu þess í framtíðinni,“ segir í minnisblaði.
Engar tekjur en talsverður kostnaður
Á jörðinni er fasteignin Skjaldarvík sem er tæpir 1900 fermetrar að stærð, á tveimur hæðum auk kjallara og skiptis upp í fjórar álmur. Þá er tæplega 250 fermetra einbýlishús á jörðinni. Fram kemur í minnisblaði að húsin beri þess merki að hafa fengið hóflegt viðhald og takmarkaðar endurbætur, en lítil starfsemi hefur verið í Skjaldarvík undanfarin misseri og því eru heldur engar tekjur af fasteignum ef frá er talið skólahúsnæðið. Engu að síður þarf að greiða kostnað við rekstur eignanna, fasteignagjöld, hita, rafmagn og tryggingar sem dæmi. Þessi kostnaður nemur á bilinu 6 til 7 milljónir króna á ári. Einnig þarf að sinna lágmarksviðhaldi á eignum, en það vex með hverju ári ef ekkert er gert. Að meðaltal hefur kostnaður við viðhald verið 6 til 10 milljónir króna á ári.
Auglýst sem fyrst og til 15 -20 ára
Hlíðarskóli hefur þrjár byggingar til umráða á Skjaldarvíkurlóðinni, einbýlishús, skólahús og verkgreinahús og er ástand skólahúsnæðis nokkur gott að því er fram kemur í minnisblaði, þó vissulega megi bæta t.d. verkgreinahús. Áfram er reiknað með að Hlíðarskóli verði rekin í þeim húsum sem hann hefur til umráða en lóð hans afmörkuð með skýrum hætti. Eins er rætt að breyta aðkomu að skólanum og hafa hana norðan við húsin en kostnaður við það liggur ekki fyrir. Lagt er til að annað húsnæði á jörðinni verði auglýst til leigu sem fyrst, leigutími verði 15 til 20 ár og að með tilboði fylgi framtíðarsýn bjóðenda og tilboðsverð.