Kynntu þér stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins

Framboð Sjálfstæðisflokksins hefur verið í forystu í sveitarstjórn um árabil. Margt hefur áunnist á þeim tíma en það er alltaf svigrúm til að gera betur. Fjöldi stórra verkefna er í farvatninu sem brýnt er að halda utan um af festu til að framkvæmd þeirra verði farsæl, má þar nefna uppbyggingu nýs hjúkrunarheimilis á Húsavík. Sveitarfélagið er vel í stakk búið til að takast á við þau verkefni sem eru framundan og munu fylgja eflingu atvinnulífs og fjölgun íbúa samhliða því. Síðustu vikur hafa frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins unnið að stefnuskrá fyrir komandi sveitarstjórnarkosningar sem er bæði umfangsmikil og metnaðarfull en fyrst og fremst er hún raunhæf.

  • Í stefnuskrá okkar kemur meðal annars fram að samhliða uppbyggingu hjúkrunarheimilis viljum við að mótuð verði stefna um nýtt hlutverk húsnæðis Dvalarheimilisins Hvamms í samstarfi við nágrannasveitarfélögun.
  • Á kjörtímabilinu sem nú er senn að líða var byggður og tekinn í notkun glæsilegur íbúðakjarni við Stóragarð og við viljum á komandi kjörtímabili hefja vinnu við undirbúning á fleiri sértækum búsetuúrræðum fyrir fatlaða þar sem þörfin er mikil.
  • Við viljum halda áfram að lækka álagningarprósentu fasteignaskatts. Frá 2018 hefur hún lækkað úr 0,575% í 0,460% á íbúðarhúsnæðum.
  • Á líðandi kjörtímabili var unnið eftir því markmiði að taka inn við 1 árs aldur á leikskólum sveitarfélagsins og viljum við halda áfram að veita þá góðu þjónustu. Við viljum útfæra mismunandi útfærslur á sumarlokunum leikskólanna og taka ákvörðun sem leiðir til fjölbreyttari lausna til samverustunda fjölskyldufólks yfir sumartímann.
  • Á síðustu 4 árum hefur frístundastyrkurinn hækkað úr 6.000 kr. í 17.500 kr. Við viljum halda áfram að gefa í og sjá til þess að hann verði orðinn 30.000 kr. við lok kjörtímabilsins. Við teljum það lykilatriði til að jafna tækifæri allra barna til þáttöku í íþrótta- og tómstundastarfi.
     
  • Þann 12. apríl 2027 mun Völsungur fagna 100 ára afmæli og viljum við að því tilefni skipa afmælisnefnd sem mun safna saman hugmyndum, útfæra og gera tillögu að afmælisgjöf Norðurþings til félagsins.
     
  • Við ætlum að búa starfsfólki og nemendum skóla sveitarfélagsins góð vinnuskilyrði með bættum aðbúnaði. Við viljum að allir hafi aðgang að góðri kennslu, öruggu og hvetjandi námsumhverfi, fjölbreyttum og vönduðum náms- og kennslugögnum og tækjakosti sem er í samræmi við nútímakröfur sem gerðar eru til menntunar og skólastarfs. Markmið okkar er að gera skólastofnanir okkar sem framúrskarandi skóla fyrir nemendur og eftirsóknarverðan vinnustað fyrir starfsólk.
  • Ferðaþjónusta er ein af stærstu atvinnugreinunum í sveitarfélaginu. Til þess að hún blómstri þarf sveitarfélagið að sjá til þess að allir nauðsynlegir innviðir séu til staðar. Liður í því er að beita sér fyrir því að Dettifossvegur verði þjónustaður allt árið um kring og að tryggð verði grunnþjónusta við notendur hafna sveitarfélagsins.

Við hvetjum þig kjósandi góður til að kynna þér okkar sýn á framtíðina og treysta okkur áfram til góðra verka.

Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins hvetja alla til að koma á kosningaskrifstofu framboðsins að Hafnarstétt 25 Húsavík og hitta frambjóðendur. Opið er virka daga 16:30 – 18:30 og laugardaga 10:30-12.

Fylgstu með okkur á facebook : www.facebook.com/xd.nordurthing

Fylgstu með okkur á Instagram: xdnordur

Stefnuskrá Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi:

https://issuu.com/xdnordur/docs/stefnuskr_sj_lfst_isflokksins_n_2022-2026

 Frambjóðendur Sjálfstæðisflokksins í Norðurþingi – setjum X við D laugardaginn 14.maí

Nýjast