Kynferðislegu brjóstin
Þá eru brjóst kvenna enn eina ferðina búin að rata á milli tannanna á fólki eða kannski eru það bara geirvörturnar. Ég hreinlega átta mig ekki alveg á því hvort það sé vartan eða allt júgrið sem á að gefa mér óumbeðna standpínu og þar með helsærða blygðunarkennd. Ástæða þess að brjóstaumræðan er komin á fullt skrið á ný er sú að stúlkugrey var fyrir skemmstu rekin upp úr sundlauginni á Akranesi fyrir að vera með brjóst sín ber í lauginni. Einhver sundlaugargesta hafði víst blygðast sín all hrikalega og borið fram kvörtun til sundlaugarvarðar.
Umræðan er þó öllu eldri en hana má rekja til „free the nipple“ byltingarinnar sem fór af stað 2015 og var mjög áberandi.
Brjóst eru kynæsandi
Hvað er það sem er svona hræðilegt eða stórkostlegt við brjóst kvenna sem vekur alltaf svo rosaleg viðbrögð hjá fólki. Jú yfirleitt er bent á það að kvenmannsbrjóst sérstaklega muni alltaf vekja upp kynferðislegar kenndir hjá karlmönnum, að konubrjóst séu þess vegna alltaf kynferðisleg.
Ég ætla að leyfa mér að vera ósammála þessu. Mér finnst brjóst klárlega vera kynæsandi, fái ég að sjá þau undir ákveðnum kringumstæðum en þar sem þeim er flaggað án þess að vera beinlínis öðrum til sýnis þá veiti ég þeim ekki sérstaklega athygli. það er líka hellingur annars í fari kvenna sem hreyfir við mér og nekt þarf alls ekki að koma við sögu. Ég geri samt ekki þá kröfu um að vera skermaður fyrir öllu því sem hugsanlega getur verið kynæsandi.
Svo má ekki gleyma því að kona í sundbol getur verið alveg jafn kynþokkafull og berbrjósta kona. Ég kannast samt ekki við að hafa átt erfitt með mig á almenningssundstöðum. Auk þess hef ég áreiðanlegar heimildir fyrir því að sterklegur karlmannsbrjóstkassi og fagurlega mótaðir kviðvöðvar hafi komið af stað fiðringi í ófáum konunum. Ég hef þó aldrei séð það skapa vandamál, hvorki á sundstöðum né á öðrum almenningsstöðum þar sem kalmenn eru vísir til að bera á sér yfirkroppinn. Svo skulum við ekki gleyma því að hvort sem kona sé kynþokkafull ber að ofan eða í lopapeysu þá á hún þennan kynþokka alveg sjálf. Það hefur engin/n, undir neinum kringumstæðum einhvern autómatískan sjálftökurétt á kynþokka annarra.
Mín niðurstaða er því sú að brjóst kvenna séu fyrst og fremst partar á líkamanum, rétt eins og júgur kúa. Það er ekki fyrr en brjóstin eru sett í ákveðið samhengi að upplifunin af þeim verður kynferðisleg. (Pistlahöfundur vonar þó að upplifun af kýrjúgrum geti ekki í nokkru samhengi verið kynferðisleg, nema þá kannski hjá bolunum).
En hvað með börnin
Andstæðingar frelsun geirvörtunnar bera oft fyrir sig þeim rökum að það þurfi að vernda börnin fyrir þeim skelfilegu afleiðingum sem því getur fylgt að sjá nakið konubrjóst. Þetta er auðvitað helber þvættingur. Börn sem enn eiga spölkorn eftir í gelgjualdurinn veita ekki brjóstum konunnar frekari athygli en ýstru karlmannsins.
Vissulega fara hormónarnir á fleygiferð hjá unglingnum þegar gelgjuskeiðið tekur yfir. Það er ekki hægt að neita því að kynhvöt unglingspilta (og eflaust stúlkna ennig) getur verið yfirþyrmandi og blossað upp hvar og hvenær sem er og oft við aðstæður sem unglingnum getur þótt óþægilegar. Ég ætla samt að gerast svo frakkur og fullyrða að unglingar væru alveg jafn spólgraðir jafnvel þótt hitt kynið færi aldrei úr kraftgallanum á almannafæri.
Ef berbrjósta kona særir blygðunarkennd unglings og veldur honum trauma eða öðrum óbætanlegum skaða þá giska ég á að hugsanlega hafi eitthvað annað en nakinn konubarmurinn farið úrskeiðis í lífi hans. Ef unglingnum þínum finnst óþægilegt eða skrítið að sjá konubrjóst í sundi, gæti það þá verið vegna þess að þú hefur komið þeirri grillu í höfuðið á honum að það sé skrítið að sjá konubrjóst í sundi?
Hvenær þurftu konur aftur að byrja hylja sig?
Þegar „free the nipple“ byltingin fór af stað þá kom hún mér svolítið í opna skjöldu verð ég að játa. Ég hafði hreinlega ekki tekið eftir því þegar tabú var breitt yfir konubrjóstin hér á Íslandi. Vissulega hefur það aldrei farið framhjá mér feimnin í bandarískri menningu gagnvart allri nekt en ávallt talið Ísland vera frjálslyndara að þessu leyti.
Undirritaður sem hratt nálgast miðjan aldur hefur verið tíður gestur í Sundlaug Húsavíkur frá barnsaldri. Þegar ég var krakki var það ekkert tiltökumál að konur flettu klæðum af brjóstum sínum á sundlaugarbakkanum til að baða þau sjaldgæfum sólargeislum. Ég veitti því ekki meiri athygli en svo að ég tók hreinlega ekki eftir því þegar konur hættu þessu. Kannski er ástæðuna fyrir þessari spéhræðslu Íslendinga að finna í Ameríkuvæðingu vestrænnar menningar án þess að ég sé neitt að setja út á siði Ameríkumanna.
Auðvitað þykist ég vita að það þótti ósæmilegt á öldum áður að kona beraði á sér brjóstin á almannafæri en það þótti líka óviðeigandi fyrir konur að ganga í buxum. Einvern tíma hvarf eða minnkaði þessi spéhræðsla gagnvart konuholdinu. Án ábyrgðar þá gæti ég best trúað því að blómabörn hippatímans, Rauðsokkur og aðrar feminískar hreyfingar eigi heiðurinn af því að losa konuna undan öllum þessum boðum og bönnum. Það sem mér finnst öllu óskiljanlegra er að við höfum leyft þessum tabúum að hreiðra um sig aftur.
Má þetta bara?
Er yfir höfuð eitthvað sem bannar konum að bera á sér brjóstin á almannafæri? Á Vísindavefnum stendur: „Ekkert ákvæði í hegningar- eða lögreglulögum leggur blátt bann við nekt á almannafæri. Í 209. grein hegningarlaga er að vísu að finna bann við því að særa blygðunarkennd manna með lostugu athæfi en sennilega þyrfti meira til en bara nekt á almannafæri til þess að brotið yrði fellt undir þetta ákvæði. Hins vegar er í lögreglusamþykktum margra sveitarfélaga að finna ákvæði sem fela í sér bann við ósæmilegri háttsemi eða hegðun og getur nekt á almannafæri fallið þar undir“.
Þó að það sé með einbeittum ásetningi hægt að túlka ýmsar lögreglusamþykktir á þann veg að það sé bannað að konur beri á sér brjóstin í sundi þá sýnist mér það ansi hæpið að flokka slíka opinberun brjósta undir lostafullt athæfi. Konur hljóta því að eiga fullan rétt á því að hylja sig eða hylja sig ekki til jafns við karla á sundstöðum. Ef við ímyndum okkur að sundlaugargestur með særða blygðunarkennd kærir konu fyrir að bera brjóst sín í sundi þá langar mig að minnsta kosti að trúa því að þeirri kæru yrði umsvifalaust vísað frá og næði aldrei til dómsstóla.
Þess vegna hlýt ég að velta fyrir mér hvort það sé ekki miklu frekar snarbannað að reka fólk frá almenningssundstöðum fyrir þær sakir einar að vera með barminn berann. Kona hlýtur að hafa sömu réttindi og karl hvort sem er í sundlaugum eða annarsstaðar. Kæra fyrir slíka mismunun hlýtur því að eiga betri séns fyrir íslenskum dómstólum.
Reynum nú öll sem eitt á nýju ári að hætta að vera fávitar gagnvart konum.
Höfundur er alltaf ber að ofan í sundi