Kvennaathvarfið á Akureyri Enn hefur ekki tekist að finna nýtt húsnæði

Leigusamningi við Kvennaathvarfið á Akureyrar var sagt upp á liðnu sumri og verður það því húsnæðisl…
Leigusamningi við Kvennaathvarfið á Akureyrar var sagt upp á liðnu sumri og verður það því húsnæðislaust frá og með 1. janúar 2025 finnist ekki hentugt húsnæði fyrir þann tíma.

„Við erum orðnar frekar órólegar yfir stöðunni,“ segir Linda Dröfn Gunnarsdóttir framkvæmdastýra Kvennaathvarfsins. Leigusamningi við Kvennaathvarfið á Akureyrar var sagt upp á liðnu sumri og verður það því húsnæðislaust frá og með 1. janúar 2025 finnist ekki hentugt húsnæði fyrir þann tíma. Leit hefur staðið yfir undanfarna tvo mánuði en ekki borið árangur. Kvennaathvarf, ætlað konum og börnum sem flýja þurfa heimili sitt sökum ofbeldis var fyrst opnað á Akureyri í ágúst árið 2020

Linda segir að rætt hafi verið við bæjaryfirvöld á Akureyri um stöðuna nú nýverið, en fram komið að bærinn hafi ekki yfir neinu húsnæði að ráða undir starfsemi af þessu tagi. Almennt sé erfitt að finna leiguhúsnæði í bænum. Kvennaathvarf á Akureyri hefur frá upphafi verið rekið í leiguhúsnæði og hafa sveitarfélög á Norðurlandi eystra tekið þátt í leigukostnaði. „Það kom fram á þessum fundi að Akureyrarbær myndi áfram taka þátt í að greiða leigu, en hefði i sjálfu sér ekki önnur úrræði. Við erum því af fullum krafti að leita að húsnæði um þessar mundir og vonum svo sannarlega að úr rætist,“ segir hún.

Ekki þörf á stóru húsnæði

Linda segir að liður í leitinni sé að hafa samband við fasteingasölur en ein lausn í málinu væri ef einhver væri á þeim stað að kaupa húsnæði ætlað til útleigu og væri til í að fá trausta langtímaleigendur. Hún segir að Kvennaathvarfið þurfi ekki mjög stórt húsnæði, þrjú svefnherbergi væri æskileg stærð auk sameiginlegs rýmis í eldhúsi, stofu og baðherbergi. „Það hentar okkur ekki að vera í fjölbýli og ekki á jarðhæð,“ segir hún, en flest annað komi til greina.

Tvær starfskonur eru hjá Kvennaathvarfinu í fastri dagvinnu, en auk þess starfa þar konur á vöktum frá morgni og fram eftir kvöldi alla daga vikunnar. Hægt er að fá viðtöl og fræðslu hjá verkefnastýru athvarfsins, en að sögn Lindu fá konur og börn sem dvelja í athvarfinu á Akureyri sambærilega þjónustu og utanumhald og tíðkast í Reykjavík.

 Fyrir ári hlutu Samtök um kvennaathvarf styrk frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti ætlaðan sérstaklega fyrir rekstur athvarfs á Akureyri og með mótframlagi frá Samtökum um kvennaathvarf hefur viðunandi þjónusta nú verið fest í sessi. Konur og börn dvelja í athvarfinu sér að kostnaðarlausu og þiggja þar frítt fæði og aðrar nauðsynjavörur á meðan á dvöl stendur. Vönduð ráðgjöf, utanumhald og ótakmarkaður tími í dvöl stuðla að því að minni líkur eru á að konur snúi til baka í ofbeldissamband.

Mikilvægt að bjóða upp á þjónustu á landsbyggðinni

Yfir 50 konur hafa dvalið í Kvennaathvarfinu á Akureyri frá því það var opnað fyrir fjórum árum og ríflega 30 börn. Um er að ræða hreina viðbót við þær konur sem sækja sér dvalar í Reykjavík, en aðsókn kvenna frá Norðurlandi hefur ekki dvínað í athvarfinu í Reykjavík með tilkomu athvarfs á Akureyri. Linda segir að ætla megi að þær sem leiti í athvarfið fyrir norðan hefðu ekki leitað sér aðstoðar nema fyrir það að neyðarathvarf er fyrir hendi á Akureyri. „Við teljum að það sé mjög mikilvægt að bjóða upp á þessa þjónustu á landsbyggðinni og það hefur sannað sig að þörfin er greinilega fyrir hendi. Það yrði því ansi súrt í broti ef við finnum ekki húsnæði og þurfum að leggja starfsemina niður. Við megum ekki til þess hugsa,“ segir hún.

Fyrir ári hlutu Samtök um kvennaathvarf styrk frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti ætlaðan sérstaklega fyrir rekstur athvarfs á Akureyri og með mótframlagi frá Samtökum um kvennaathvarf hefur viðunandi þjónusta nú verið fest í sessi. Hér tekur Linda Dröfn við styrknum úr hendi Guðmundar Inga Guðbrandssonar félags- og vinnumarkaðsráðherra.


Athugasemdir

Nýjast