Kvennaathvarf á Akureyri missir húsnæði um áramót og óskar liðsinnis bæjarins við leit að nýju
Leigusamningi við Kvennaathvarfið á Akureyri hefur verið sagt upp og athvarfið verður því húsnæðislaust frá og með 1. janúar 2025. Samtök um Kvennaathvarf hafa leitað til bæjarráðs Akureyrarbæjar um að koma til samstarfs til þess að tryggja athvarfinu öruggt húsnæði. Í ágúst 2020 opnuðu Samtök um kvennaathvarf neyðarathvarf á Akureyri ætlað konum og börnum þeirra, sem flýja þurfa heimili sín sökum ofbeldis.
Kvennaathvarf á Akureyri hófst sem tilraunaverkefni en það kom fljótt í ljós að mikil þörf væri á slíku úrræði á svæðinu. Því var ákveðið að halda rekstri athvarfsins áfram og bæta við þjónustu þess, þannig að konur og börn fengju sambærilega aðstoð og utanumhald eins og tíðkast í Reykjavík. Í september 2023 hlutu Samtök um kvennaathvarf styrk frá félags- og vinnumarkaðsráðuneyti ætlaðan sérstaklega fyrir rekstur athvarfs á Akureyri og með mótframlagi frá Samtökum um kvennaathvarf hefur viðunandi þjónusta nú verið fest í sessi.
49 konur og 34 börn hafa dvalið í Kvennaathvarfinu á Akureyri þann tíma sem það hefur starfað.Um er að ræða hreina viðbót við þær konur sem sækja sér dvalar í Reykjavík, en aðsókn kvenna frá Norðurlandi hefur ekki dvínað í athvarfinu í Reykjavík með tilkomu athvarfs á Akureyri. Því má ætla að um sé að ræða konur sem ekki hefðu leitað til Kvennaathvarfs ef ekki væri fyrir neyðarathvarf á Akureyri. Konur og börn dvelja í athvarfinu sér að kostnaðarlausu og þiggja þar frítt fæði og aðrar nauðsynjavörur á meðan á dvöl stendur. Vönduð ráðgjöf, utanumhald og ótakmarkaður tími í dvöl stuðla að því að minni líkur eru á að konur snúi til baka í ofbeldissamband.
Bagalegt að heimilið sé í ótryggu húsnæði á almennum markaði
Kvennaathvarf á Akureyri hefur frá upphafi verið rekið í leiguhúsnæði og hafa sveitarfélög á Norðurlandi eystra tekið þátt í leigukostnaði. Nú hefur leigunni verið sagt upp og athvarfið því húsnæðislaust frá og með 1. janúar 2025. „Við leitum því hér með til Akureyrarbæjar eftir samvinnu við að finna farsæla lausn á húsnæðismálum athvarfsins og tryggja þannig framboð á því mikilvæga úrræði sem samtökin bjóða konum og börnum sem flýja þurfa heimili sín sökum ofbeldis. Ljóst er að það er einkar bagalegt að grunnþjónusta sem athvarfið veitir sé í ótryggu húsnæði á almennum markaði. Einstaklega mikilvægt er að þjónusta athvarfsins sé samfelld og að húsnæði finnist áður en uppsögn leigusamnings tekur gildi,“ segir í erindi frá Kvennaathvarfinu