20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Kvaddi MA með útsaumaðri mynd af Gamla skóla
Á hátíðarfagnaði nýstúdenta Menntaskólans á Akureyri í Íþróttahöllinni þann 17. júní síðastliðinn færði Freyja Steindórsdóttir nýstúdent skólanum að gjöf mynd sem hún hefur saumað að undanfarið ár. Myndin er af Gamla skóla, gerð eftir ljósmynd Sverris Páls. Freyja ákvað að gera eftir henni krosssaumsmynd og vann að því í öllum lausum stundum í eitt ár meðfram námi, félagsstörfum og vinnu frá því í apríl 2016 fram í maí 2017.
„Ég kláraði annað verkefni í fyrra og vantaði eitthvað nýtt að vinna með. Mér finnst mjög gaman að sauma út eftir ljósmyndum og datt í hug að þetta yrði skemmtileg leið til að þakka skólanum fyrir árin. Ég var að meðaltali 1-2 tíma að sauma á hverjum degi,“ segir Freyja í stuttu spjalli við Vikudag.
Á vef MA segir að myndin sé með 41.600 krosssaumssporum og litir á saumagarninu eru 26. „Hún er fagurlega innrömmuð og verður fundinn góður staður og er merkt MA 0248 í listaverkaskrá skólans,“ segir á vefsíðu MA.