Kruðerí, kósýheit, kertaljós og knús
Aðventuröltið í Dalvíkurbyggð er hugguleg kvöldstund þar sem fólk gengur um bæinn og verslar við fyrirtæki í heimabyggð. Má segja að þessi hefð eigi rætur sínar að rekja allt aftur til 1994 en henni hefur verið haldið úti undir þeim formerkjum sem þekkist í dag frá árinu 2008.
Kertakvöld fyrsti vísir að aðventurölti
Segja má að ákveðin hefð í kring um aðventuna hafi fyrst byrjað árið 1994 með svokölluðum kertakvöldum sem María Snorradóttir, Heiða Símonardóttir og samstarfskonur þeirra í blómabúðinni Ilex stóðu fyrir. „Þá vorum við með rómantísk kvöld á aðventunni, kveikt á kertaljósum og alls konar tilboð í gangi.“
Þetta var gert tvisvar yfir aðventuna og gaf það fólki færi á að versla jólagjafir og eiga notalega stund. Kertakvöldin gáfu svo sannarlega tóninn fyrir það sem koma skyldi og þegar jólamarkaðshelgin hófst, tóku þær að sjálfsögðu þátt í henni.
Jólamarkaðshelgin
Júlíus Júlíusson, upphafsmaður jólamarkaðshelgarinnar.
Hin fyrirtækin í bænum fengu innblástur frá kertakvöldunum og árið 1997 ákvað Júlíus Júlíusson að setja á fót svokallaða jólamarkaðshelgi. Þá var búið að útvega bæjarbúum bækling sem innihélt lista yfir þau 21 fyrirtæki sem ætluðu að taka þátt. Áttu þeir sem vildu taka þátt í viðburðinum síðan að heimsækja a.m.k. tíu þessara fyrirtækja til að komast í pott og eiga möguleika á að vinna verðlaun sem fyrirtækin gáfu.
Fyrir þessa helgi höfðu flest öll fyrirtæki bæjarins sammælst um að taka á móti fólki og voru með tilboð á vörum og þjónustu. Markmiðið var „að efla heimamenn til að versla heima,“ nýta sér þá þjónustu sem fyrir var í bænum og styðja þannig við bakið á þeim. „Fyrst og fremst var markmiðið samt að búa til stemningu,“ segir Júlíus.
Jólamarkaðshelgin var haldin árin 1997 og 1998 en hefur ekki verið haldin sem slík eftir það. Hins vegar þurfti ekki meira til þess að fyrirtækjaeigendur áttuðu sig á hve hagstætt þetta gat verið og sömuleiðis ríkti mikil ánægja meðal bæjarbúa með þessa hefð.
Aðventuröltið
Árið 2008 tók handverkskonan Sigríður Guðmundsdóttir sig til og endurvakti þessa stemningu. Hún og fleiri handverkskonur og tengdu fyrirtæki sín með því að kveikja á kertum á milli þeirra og buðu fólk velkomið. Má segja að það sé fyrsta árið sem aðventuröltið fór af stað undir þeim formerkjum sem það er í dag.
Sigríður Guðmundsdóttir sem endurvakti fyrri hefðir og kom af stað aðventuröltinu árið 2008.
Á næstu árum fóru fleiri fyrirtæki að taka þátt og er þetta nú orðið að þeirri miklu hefð sem hún er í dag. Með henni var fólk hvatt til þess að fara út, skilja bílinn eftir heima og rölta um bæinn með fjölskyldu og vinum, eða eins og Júlíus segir, „í raun bara að hvetja fólk til að hittast.“ Júlíus vonar og trúir að hefðin sé komin til að vera, enda hefur fólk gaman af, en þjónustuaðilum fer fækkandi þannig að nú er mikilvægara en nokkru sinni fyrr að halda utan um hana.
Það hefur skapast hefð fyrir sameiginlegum markaði þar sem handverksfólk safnast saman og selja verk sín. Markaðurinn hefur verið haldinn í menningarhúsinu Bergi undanfarin ár. Aðventuröltið reynist frábær kynning og tækifæri fyrir ný fyrirtæki að koma sér á framfæri. Aðventurölti þessa árs var frestað til 9. desember en þegar þetta er skrifað var ekki ljóst hvort samkomutakmarkanir leyfðu framkvæmd þess.
Gott tækifæri fyrir fyrirtæki í heimabyggð
Sigríður Jódís Gunnarsdóttir, fyrirtækjarekandi á Dalvík, segir áhrif aðventuröltsins mjög jákvæð. Hún rekur ásamt fleiri konum gjafavöruverslunina og snyrti- og hárgreiðslustofuna Doríu. „Þetta er auðvitað mjög hvetjandi fyrir fólk til að versla í heimabyggð, flestir bjóða upp á afslætti og það skapast ákveðin stemning.“
Sigríður segir fyrsta aðventuröltið sem fyrirtækið tók þátt í hafa verið ákveðinn vendipunkt og komið því betur á kortið. Hún segir líka jákvætt að sjá hve vel fyrirtækin vinni saman til þess að láta kvöldið ganga upp. Upplifun hennar af kvöldinu er því með eindæmum jákvæð.
AGB