Kristnes fagnaði 90 ára afmæli
Kristnesspítali fagnaði 90 ára afmæli sínu í gær þann 1. nóvember með hátíðlegri athöfn en frá árinu 1927 hefur verið rekin heilsutengd starfsemi í Kristnesi. Spítalinn hefur frá árinu 1993 verið hluti af Sjúkrahúsinu á Akureyri, SAk. Spítalanum voru færðar margar gjafir í tilefni dagsins.
Hollvinasamtök Sjúkrahússins á Akureyri afhentu Kristnesspítala 6 milljónir króna að gjöf, sem verður varið til kaupa á þjálfunarbúnaði í sjúkraþjálfun og hægindastólum á legudeildirnar.Oddfellowstúkurnar á Akureyri færðu spítalanum 3 milljónir króna að gjöf og verða þær notaðar til kaupa á tveimur sérhönnuðum loftdýnum, tveimur sjúkrarúmum sem þola þunga einstaklinga, æfingastandbekk og ferðasúrefnissíu. Þá verður hluta fjármunanna varið til kaupa á snjóblásara til að skjólstæðingar, aðstandendur þeirra og starfsfólk spítalans geti notið aukinnar útivistar að vetri til. Fram kom við afhendingu gjafanna að með tilkomu snjóblásara rættist 90 ára gamall draumur þeirra sem stóðu að byggingu Kristneshælis.
Þrjú kvenfélög færðu spítalanum peningagjafir; Kvenfélagið Iðunn og Kvenfélagið Hjálpin, bæði í Eyjafjarðarsveit, og Kvenfélag Fnjóskdæla og verða fjármunirnir notaðir til kaupa á útibekk og ferðasúrefnissíu. Þá færði Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis spítalanum Lazyboy-stól að gjöf. Loks gaf Eyjafjarðarsveit þrjá setbekki úr Lerki.
Bjarni Jónasson, forstjóri SAk, sagði í ávarpi sínu að Kristnesspítali hafi leikið lykilhlutverk í heilbrigðisþjónustu allt frá því hann tók til starfa og muni gera áfram. „Þetta er þjónusta sem íbúar á starfssvæði sjúkrahússins kunna vel að meta svo sem sjá má af þeim veglegu gjöfum sem spítalanum hafa verið færðar nú og í gegnum tíðina,“ sagði Bjarni.
Ingvar Þóroddsson, forstöðulæknir í Kristnesi, sagði að þessar höfðinglegu gjafir hjálpuðu mjög mikið til við að endurnýja nauðsynlegan tækjakost og búa enn betur að skjólstæðingum sjúkrahússins. „Gjafirnar sýna að mjög margir muna eftir Kristnesi og hugsa hlýlega til okkar. Fyrir það er ég afskaplega þakklátur.“
Ingvar sagði jafnframt að meginmarkmiðin með starfseminni í Kristnesi væru tvö; endurhæfa fólk á hvaða aldri sem er til að það geti verið sem lengst heima og á vinnumarkaði og endurhæfa aldraða með það að markmiði að þeir geti dvalist sem lengst heima hjá sér.