Dagskráin 26. febrúar - 5. mars Tbl 8
Körfuboltaspilandi og kórsyngjandi heimspekingur
Vísindafólkið okkar er mánaðarleg kynning á vísindafólkinu okkar. Sigurður Kristinsson, prófessor í heimspeki og deildarforseti Félagsvísindadeildar er vísindamanneskja febrúar.
„Heimspeki er eins og gott samtal“
„– hún á að vekja okkur til umhugsunar og ögra hugsun okkar.“ Þessi orð endurspegla vel bæði fræðimanninn og kennarann sem Sigurður er. Hann hefur helgað líf sitt heimspekinni og sérstaklega siðfræðinni, sem er ein af undirgreinum hennar.
Sigurður fæddist í Reykjavík árið 1966 og fluttist fjögurra ára gamall með fjölskyldunni að Laugarvatni. Þar ólst hann upp og þangað liggja hans átthagataugar. Eftir stúdentspróf frá Menntaskólanum að Laugarvatni lá leið hans í heimspeki og sagnfræði við Háskóla Íslands. Árið 1990 hélt hann síðan í framhaldsnám í heimspeki við Cornell háskóla í Bandaríkjunum, þaðan sem hann lauk doktorsprófi sex árum síðar. Hann starfaði um skeið við Missouri-háskóla í St. Louis áður en hann settist að á Akureyri og hóf störf við Háskólann þar.
„Ég var svo heppinn að fá að vinna með Páli Skúlasyni í rannsóknum og taka þátt í verkefnum Siðfræðistofnunar á þeim tíma sem hún var að verða til. Sú vinna vakti áhuga minn á hagnýtri siðfræði og það hefur endurspeglað val mitt á rannsóknarefnum. Að skoða fagmennsku og siðferði hjá starfsstéttum, til dæmis í heilbrigðis- og menntakerfinu, hjá fjölmiðlum og jafnvel meðal stjórnmálafólks. Þar eru svo margir fletir siðfræðinnar sem áhugavert er að rannsaka,“ segir Sigurður um rannsóknir sínar. Þrátt fyrir að heimspeki sé oft talin fjarlæg daglegu lífi leggur Sigurður áherslu á að hún sé í raun ómissandi fyrir samfélagið – hún hjálpar okkur að greina siðferðileg viðfangsefni og móta stefnu í ýmsum málaflokkum.
Óvæntu sjónarhornin skemmtilegust
Í kennslu sinni nýtur Sigurður þess að ræða við nemendur um siðferðileg álitamál í hinum ýmsu fögum, svo sem lögfræði, fjölmiðlafræði, hjúkrunarfræði og kennarafræði. „Ég lít á kennslu sem gagnkvæmt ferli – ekki bara sem miðlun þekkingar frá kennara til nemenda, heldur einnig sem lærdóm fyrir mig sjálfan. Það sem ég met mest við kennsluna er þegar nemendur koma mér á óvart með óvæntum sjónarhornum og skemmtilegum hugmyndum sem ég sjálfur hefði ekki endilega séð fyrir.“
Hann bætir við, „ég er þakklátur fyrir það sem ég hef lært í gegnum tíðina af þeim þúsundum nemenda sem mér hefur verið trúað fyrir. Tækifærin í kennslu liggja oft í að laða fram og byggja á þeirri fjölbreyttu þekkingu sem stúdentar búa þegar yfir. Slíkt nám kallar á lærdómssamfélag, en segja má að helsta áskorunin í kennslunni hjá okkur sé sú að skapa og viðhalda slíku samfélagi í sveigjanlegu námi eins og því sem boðið er upp á við Háskólann á Akureyri.“
Ástríðan fyrir tónlistinni og siðfræðinni
Það er mikill óplægður akur í siðfræðirannsóknum á Íslandi og á alþjóðavísu að mati Sigurðar. Framþróun í tækni og vísindum kallar á að stöðugt sé í gangi vönduð, gagnrýnin rannsókn á siðferðilegum álitamálum sem slíkar nýjungar leiða til. „Ég tel að fagstéttir þurfi á því að halda að rannsóknir séu viðvarandi á siðferðilegum álitamálum sem hver og ein þeirra stendur frammi fyrir. Slíkum rannsóknum er aldrei lokið í eitt skipti fyrir öll heldur taka þær mið af þróun samfélags og þekkingar á fjölmörgum sviðum. Afurðir slíkra rannsókna nýtast í fagnámi, starfsþróun og mótun starfsaðferða og menningar. Ég vil líka nefna að nú eru lýðræðisógnir mjög til umræðu og í því samhengi þurfum við öll að hugsa vandlega um þau siðferðilegu gildi sem í húfi eru þegar rætt er um samfélagslegar breytingar,“ segir Sigurður um mikilvægi áframhaldandi rannsókna og hvar þær nýtast.
Sigurður er líka fjölskyldumaður sem nýtur þess að verja tíma með sínum nánustu. „Á persónulegum nótum á ég þrjá afastráka og fjórða afabarnið á leiðinni. Ég hef einnig spilað körfubolta í 50 ár og þrátt fyrir að meistarinn sé enn ókominn, þá hef ég ekki gefið upp vonina um að æfingin skapi hann.“ Hann hefur einnig lengi haft ástríðu fyrir tónlist, sungið með Karlakór Akureyrar- Geysi og gutlað við að spila á píanó.
Þrátt fyrir mikinn metnað í körfuboltanum og tónlistinni er ljóst að heimspekin hefur verið rauður þráður í lífi Sigurðar. Hvort sem það er í rannsóknum, kennslu eða daglegu lífi, leitast hann stöðugt við að skilja heiminn betur og miðla þeim skilningi til annarra. Áfram heldur hann að ögra hugsun okkar og hvetja okkur til að horfa dýpra á siðferðileg álitamál – rétt eins og heimspekin á að gera.
Á Anfield Road í Liverpool 2019