Vantar sárlega íbúðir fyrir eldri borgara- Unnið að stofnun ÍBA+55

„Við erum að eiga við uppsafnaðan vanda, þörfin er æpandi og verði ekki neitt að gert stefnir í algert ófremdarástand innan fárra ára,“ segja þeir Guðmundur Magnússon og Karl Erlendsson sem vinna að því að stofna félagið ÍBA +55, Íbúðarþróunarfélagi Akureyrar. Þeir vinna sameiginlega að verkefninu hjá Drift EA, frumkvöðlasetri í gamla Landsbankahúsinu. Verkefni þeirra var valið inn í Hlunninn sem þýðir að þeir fá margs konar aðstoð við verkefnið og vinnslu þess fram í byrjun sumars.
Karl, sem er formaður Félags eldri borgara á Akureyri, EBAK var í starfshópi á vegum Akureyrarbæjar sem vann að verkefni um lífsgæðakjarna en það var kynnt í október á liðnu hausti. Bæjarráð og bæjarstjórn hafa fjallað um verkefnið og samþykkt að ýta því úr vör. Guðmundur er með meistarapróf í heilbrigðisvísindum og hefur undanfarin ár unnið að málefnum sem tengjast eldra fólki.
Eldra fólki fjölgar og skortur er á íbúðum við hæfi
Gert er ráð fyrir mikilli fjölgun fólks í elstu aldurshópunum, 80 ára og eldri á næstu árum. Því fylgir aukin þörf fyrir hjúkrunarheimili og mikil heimahjúkrun. Guðmundur og Karl hafa gert mat á þörf fyrir íbúðir fyrir 60 ára og eldri. Í ljós kom að á næstu 10 árum má gera ráð fyrir að þörfin verði rúmlega 500 íbúðir og ef horft er til lengri framtíðar, eða 20 ára er þörfin um 900 íbúðir.
Íbúðarþróunarfélagi Akureyrar er á næstu misserum ætlað að koma á fót verkefni sem nefnist „Íbúðir út lífið.“ Markmið þess verður að styrkja stöðu fólks eftir miðjan aldur til að takast á við heilsufarsáskoranir og hnignandi heilsu með búsetu í sérhönnuðu húsnæði.
Þekkingar- þróunar- og framkvæmdafélag
„ÍBA+55 verður þekkingar- þróunar- og framkvæmdafélag sem stendur fyrir hönnun íbúða sem henta fólki þegar aldurinn færist yfir sem og einnig mun félagið standa fyrir þróun byggingareita sem henta þörfum þessa aldurhóps, þ.e. fólk sem komið er yfir miðjan aldur. Þá horfum við til þess að fá til liðs við okkur byggingarverktaka og fjárfesta til að byggja slíkar íbúðir og taka þátt í þróun byggingarsvæða,“ segja þeir og óska eftir að komast í samband við áhuga sama aðila.
Félagið verður árangursdrifið einkahlutafélag sem muni nýta afkomu sína til að frekari þróunar og uppbyggingar á „Íbúðum út lífið.“
Þeir sjá fyrir sér að „Íbúðir út lífið“ verði þátttakandi í einstaka byggingareitum þar sem komið verður upp slíkum íbúðum og að þeir verði ýmist seldar, leigðar eða verði í formi hlutdeildaríbúða. Þá nefna þeir að einnig verði horft til þess að sinna þörfum fyrir almennar íbúðir ætlaðar efnaminna fólki.
Fimm svæði koma til greina
Horft er til nokkurra svæði á Akureyri þar sem hægt er að koma upp svonefndum lífsgæðakjörnum, þ.e. íbúðum fyrir fólk sem komið er á efri ár, ýmist með eða án hjúkrunarheimilis innan seilingar. Þar er horft til hluta af tjaldsvæðareits, Móahverfis, svæði norðan Lögmannshlíðar í Síðuhverfi og svæði vestan við Hagahverfi hefur einnig verið í umræðunni um skeið. Það svæði sem lengst er komið er við Þursaholt og má gera ráð fyrir að fyrsti lífsgæðakjarni Akureyrarbæjar rísi þar í nánustu framtíð.
Fyrsti lífsgæðakjarninn á Akureyri verður væntanlega við Þursaholt
„Málið á sér þann aðdraganda að lóðum við Þursaholt var úthlutað til Búfestis á sínum tíma og í samvinnu við EBAK var ætlunin að reisa talsverðan fjölda íbúða fyrir aldurshópinn 60 ára og eldri á því svæði. Málin þróuðust þannig að forsendur brustu og lóðum var skilað. Fram kom sú hugmynd að færa hjúkrunarheimili sem lengi hefur staðið til að byggja á lóð við hlið Lögmannshlíðar og að Þursaholti og er enn verið að vinna með þá hugmynd. Lóðir á svæðinu eru tilbúnar og ég held að fólk gæli við að hægt verði að hefjast handa við framkvæmdir á þessum reit á næsta ári, fari allt að óskum,“ segir Karl.
Horft er til þess að hjúkrunarheimilið við Þursaholt verði með 80 til 90 rýmum og umhverfis það verði reistar íbúðir sem sérhannaðar eru fyrir fólk á efri árum. Þar er að sögn Guðmundar og Karls m.a. horft til þess að rými séu stærri en gengur og gerist, m.a. salerni og svefnherbergi til að hægt verði, þegar á þarf að halda að sinna hjúkrunarþjónustu heima við. Hurðir þurfa að vera stærri og engir þröskuldar svo dæmi séu tekin, en tækni hefur fleygt fram varðandi hjálpartæki sem auðvelda störf þeirra sem sinna þjónustu við fólk heima.
Ekkert verið gert frá árinu 2013
Þeir félagar segja að árið 2013 hafi fjölbýlishúsið við Undirhlíð 1 risið með um 30 íbúðum, fyrir eldri borgara. „Síðan þá hefur ekki neitt gerst í þessum málum í bænum og er því svo komið að skortur á íbúðum fyrir þennan aldurshóp er orðinn verulega mikill. Það má því alls ekki bíða lengur með að bregðast við, ella fáum við holskeflu yfir okkur fyrr en okkur grunar,“ segir Guðmundur. „Það er ljóst að við erum að takast á við mikla áskorun og við bara verðum að gjöra svo vel að bretta upp ermarnar og hefjast handa.“
Yfirbyggður innigarður
Þeir hafa kynnt sér hvernig staðið er að málum á öðrum Norðurlöndum en þar eru íbúðir stundum reistar umhverfis yfirbyggðan garð. „Við viljum gjarnan sjá þannig hönnun hér hjá okkur, það lengir mjög þann tíma sem fólk hefur kost á að fara út og viðra sig. Þeir sjá einnig fyrir sér að eins konar dagþjónusta verði veitt í lífsgæðakjarnanum og að þar verði sameiginlegur salur þar sem hægt er að drekka kaffi og matast sem og að stunda félagsstarf. „Það er mikilvægt að umhverfið verði aðlaðandi og að fólk komist út úr sínum íbúðum þó heilsunni hraki og geti hitt á aðra íbúða í kjarnanum, sem dregur þá úr félagslegri einangrun. Það er mikill ávinningur fyrir samfélagið að fólk geti búið sem allra lengst heima, það er best fyrir það sjálft og líka ódýrasti kosturinn fyrir samfélagið,“ segja þeir.
Víða á Norðurlöndum eru sérhannaðar íbúðir fyrir eldri borgara þar sem útbúinn hefur verið yfirbyggður garður