Konurnar og orgelið

Sigrún Magna Þórsteinsdóttir.
Sigrún Magna Þórsteinsdóttir.

Sunnudaginn 12. febrúar kl. 16.00 verða tónleikar í Akureyrarkirkju sem nefnast Konurnar og orgelið. Á tónleikunum mun Sigrún Magna Þórsteinsdóttir flytja orgelverk samin af konum og eru það lokatónleikarnir í tónleikaröð sem Sigrún hefur haldið undanfarið og tileinkað konum. Efnisskráin spannar nokkrar aldir af tónlist kvenna í ýmsum stílum, stór verk og lítil, hugljúf og ljóðræn en líka gáskafull, dansandi og dramatísk.

Nýjustu verkin eru eftir sprellifandi tónskáld í fullu fjöri,  þær Láru Sóleyju Jóhannsdóttur, Hildigunni Rúnarsdóttur, Báru Grímsdóttur og hina dönsku Lise Dynnesen auk þess sem Sigrún leikur eigin verk. Einnig verða á efnisskránni verk eftir kjarnakonur fyrri alda og má þar nefna Florence B. Pryce sem var bandarísk blökkukona og varð fyrsta blökkukonan til að fá viðurkenningu sem tónskáld í Bandaríkjunum. Hún átti glæstan feril sem tónskáld og organisti og hún þótti mjög fær í að leika tónlist á orgel með þöglum myndum bíóhúsanna.

„Það þykir kannski ekki tiltökumál í jafnréttissamfélagi okkar árið 2017 að kona semji tónlist fyrir orgel en staðreyndin er sú að konur eru skráðar fyrir mjög fáum prósentum orgelverka. Í Danmörku er hlutfallið 1% þrátt fyrir að helmingur organista landsins séu konur og má gera ráð fyrir að hlutfallið sé ekki ósvipað hér á landi. Tónlistin er gullfalleg og vel þess virði að kynna hana,“ segir í tilkynningu.

Aðgangur að tónleikunum er ókeypis. Sigrún Magna stundaði tónlistarnám í Tónlistarskólanum á Akureyri, Tónlistarskólanum í Reykjavík, við Tónskóla þjóðkirkjunnar og í  Konunglega danska tónlistarháskólanum í Kaupmannahöfn. Þaðan lauk hún meistaraprófi í kirkjutónlist undir handleiðslu prof. Bine Bryndorf. Sigrún hefur starfað sem organisti og kórstjóri í Reykjavík, í Kaupmannahöfn og á Akureyri. Hún starfar nú sem organisti við Akureyrarkirkju, við Möðruvallaklausturskirkju í Hörgárdal og kennir við Tónlistarskólann á Akureyri. 

Nýjast