20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Kláfferja eða lyftugöng í Hlíðarfjalli
Í síðasta tölublaði Vikudags var þess getið að í nýrri ferðamálastefnu Akureyrarbæjar væri lagt til að kannað verði sérstaklega hvort uppsetning kláfferju á topp Hlíðarfjalls geti orðið að veruleika sem einkaframkvæmd. Gerð verði gróf áætlun eða eldri áætlun uppfærð um byggingarkostnað kláfferju fyrir lok árs 2017.
Umræða um kláfferju upp á brún Hlíðarfjalls hefur staðið lengi og þar hefur fremst og lengst farið Sveinn Jónsson bóndi og framkvæmdamaður í Kálfskinni, sem hefur óbilandi trú á þessu verkefni.
Eins og sagði í fréttinni er gert ráð fyrri kláfferju í deiluskipulagi fyrir skíðasvæðið, en deiliskipulagið byggir á vinnu sem unnin var fyrir Vetrar íþróttamiðstöð Íslands og íþróttaráði Akureyrarbæjar (ÍRA), sem lokið var með viðamikilli skýrslu árið 2009. Ég var formaður ÍRA á þessum árum og þekki því vel til þessara hugmynda.
Ég er jafn sannfærður nú, eins og þá, að slík framkvæmd býður upp á mikla möguleika í að styrkja starfsemi í Hlíðarfjalli, jafnt vetur sem sumar. Hins vegar hef ég viljað að samtímis verði kannaður möguleiki þess að bora lyftugöng upp á brún Hlíðarfjalls. Ætla má að stofnkostnaður verði eitthvað meiri og framkvæmdatími lengri, en að sama skapi er rekstraröryggi langt um meira en við kláfferju. Göng standa um aldur og æfi og allur búnaður endingarmeiri en kláfferju og daglegur rekstur einfaldari og ódýrari.
Með slíkum göngum væri hægt að fara upp á brún í hvaða veðri sem er og það gæti verið stórkostleg upplifun fyrir ferðamenn að njóta veitinga í veitingahúsi á fjallsbrún vitandi að utan við gluggann geisi óveður. Þá tel ég að lyftugöng auki nýtingu á skíðabrekkunum þar sem kláfferja verður alltaf mjög viðkvæm fyrir veðri og vindum og eins mun margur veigra sér við að fara upp í kláfnum ef eitthvað blæs.
Það má líka hugsa sér að hluti slíkar ganga og þá andyri þess sérstaklega, geti nýst fyrir ýmis konar aðra starfsemi Hlíðarfjalls sem þarf að hýsa og hver veit nema um leið megi finna tryggar vatnslindir. Víða erlendis er að finna svona göng bæði ný, en einnig eldri göng sem gerð hafa verið upp fyrir ferðamennsku, en voru upphaflega gerð í öðrum tilgangi s.s. hernaðarlegum. Þar hafa ráðið fyrrnefndir þættir er snúa að rekstraröryggi, en líka meiri afköst fram yfir kláfferju.