Kjarakönnun Einingar-Iðju Meðallaun hæst á Dalvík en dagvinnulaunin á Akureyri

Frá Akureyri    Mynd  Vikublaðið
Frá Akureyri Mynd Vikublaðið

Heildarlaun félagsmanna í Einingu-Iðju er 616 þúsund krónur og hafa hækkað á milli ára úr 576 þúsund krónum. Þetta kemur fram í kjarakönnun félagsins sem gerð var seint á síðastliðnu ári. Björn Snæbjörnsson formaður Einingar Iðju segir að  niðurstöður könnunarinnar sýni að þær launahækkanir sem um var samið á liðnu ári hafi skilað sér til félagsmanna.

Fram kemur í könnuninni að heildarlaun félagsmanna eru hæst á Dalvík, en þar eru þau 655 þúsund krónur á mánuði.  Á Akureyri eru heildarlaun 616 þúsund krónur, í Fjallabyggð 573 þúsund krónur og annars staðar á Eyjafjarðarsvæðinu eru heildarlaun 590 þúsund krónur. Inni í heildarlaunum er yfirvinna, vaktaálag bónusar og fleira sem hífa launin upp.

Dagvinnulaun eru heldur lægri, 491 þúsund kónur á mánuði miðað við allan hópinn fyrir árið 2022, en voru 458 þúsund krónur árið á undan. Þegar dagvinnulaun eru skoðuð kemur í ljóst að þau eru hæst á Akureyri, 495 þúsund krónur á mánuði, á Dalvík eru þau 461 þúsund krónur, 482 þúsund í Fjallabyggð og 485 þúsund krónur annars staðar.

Gott atvinnuástand

Björn segir að hópurinn sérhæfðir sérfræðingar þar sem innanborðs eru m.a. verkstjórar og fólk við skrifstofustörf sé launahæsta  Einingar-Iðju félaga með 704 þúsund krónur í mánaðarlaun en í launalægstuhópurinn eru þeir sem starfa m.a. við  þrif og í mötuneytum.

Bílstjórar og tækjarmenn eru í hópi þeirra sem hæst hafa laun meðal félagsmanna Einingar-iðju, og þeir vinna einnig mesta yfirvinnu. Einnig er talsvert um yfirvinnu hjá þeim sem starfa við byggingar- og mannvirkjagerð.

„Ég held að þessi kjarakönnun endurspegli þann kraft sem er í eyfirsku atvinnulífi nú um stundir. Það er ekki annað að sjá en atvinnuástandið sé gott, næga vinnu að hafa og mikið um að vera almennt,” segir Björn.

Nýjast