Ketill gefur kost á sér í 1-2 sæti hjá Sjálstæðisflokknum á Akureyri

Ketill Sigurður Jóelsson viðskiptafræðingur hefur tilkynnt um að hann sækist eftir kost  1-2 sæti á lista Sjálfstæðisflokksins á Akureyri fyrir sveitarstjórnarkosningarnar 14. maí í vor.

Ketill er menntaður viðskiptafræðingur og stundar eigin rekstur samhliða starfi sem verkefnastjóri á rekstrardeild umhverfis- og mannvirkjasviðs Akureyrarbæjar. Ketill hefur verið virkur í Sjálfstæðisflokknum og tekið virkan þátt í kosningum og starfi flokksins undanfarin ár.

„Nú er kominn tími til þess að horfa með bjartsýnum augum til framtíðar og setja okkur markmið til lengri tíma en aðeins eitt kjörtímabil í einu. Á Akureyri er ótrúlega gott að búa, hér eru frábærir skólar, allt frá leikskóla til háskóla, fjölbreytni tómstunda mjög mikil og góður grunnur til þess að reka hér fjölskyldu. Grunnstoðir samfélagsins eru eins og þær gerast bestar og tækifærin mýmörg. Hér er flugvöllur í uppbyggingu, framsækið sjúkrahús, blómleg verlsun og sterkur iðnaður. Ný hverfi eru að rísa með möguleika á fjölgun íbúa. Fyrirtæki og ríki standa hér að mikilli uppbyggingu þar sem ný fyrirtæki koma til Akureyrar, eldri fyrirtæki stækka við sig og ríkið styrkir stoðir samfélagsins með byggingu heilsugæslustöðva, hjúkrunarheimilis, flugstöðvar, aukinnar flutningsgetu rafmagns og bættum samgöngum. Verkefnin eru krefjandi og áskoranirnar margar en þetta getum við allt leyst með góðum upplýsingum og framsýni. Það fer ekki fram hjá neinum að höfuðstaður norðurlands og stærsti þéttbýliskjarni utan höfuðborgarsvæðisins á sér bjarta framtíð. Núna þarf að styðja við þessa þróun og horfa til framtíðar. Hvernig verður Akureyri eftir 25 ár?“ segir Ketill í tilkynningu.

Nýjast