Kennarar við Lundarskóla boða til verkfalls
Það stefnir í verkfall kennara við Lundarskóla á Akureyri á miðnætti 29 október hafi ekki náðst samkomulag milli Kennarasambands Íslands og Samtaka íslenskra sveitarfélaga fyrir þann tíma.
Félagar í KÍ greiddu í vikunni atkvæði um hvort grípa ætti til verkfalla í nokkrum leik- og grunnskólum á landinu og einum framhaldsskóla. Kennarar við Lundarskóla voru þátttakendur í atkvæðagreiðslu þessari og samþykktu þeir að boða til verkfalls.
Verkfallsaðgerðir hefjast eins og fyrr sagði á miðnætti 29. október og standa til 22. nóvember, hafi samningar ekki náðst.
Deiluaðilar hittust á fundi í gær hjá ríkissáttasemjara en ekki var mikill árangur á þeim fundi.
Næsti sáttafundur verður ekki fyrr en á þriðjudag.