20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Kaon: Þakklæti fyrir gríðarlega gott bakland í heimabyggð
„Það hefur heldur betur sýnt sig að við eigum gríðarlega gott bakland í heimabyggð þegar kemur að styrkjum og stuðningi og fyrir það eru við ævinlega þakklát, „ segir Marta Kristín Rósudóttir verkefnastjóri hjá Krabbameinsfélagi Akureyrar og nágrennis, Kaon. Félagið er alfarið rekið fyrir sjálfsaflafé og með styrkjum frá einstaklingum, fyrirtækjum og öðrum félagasamtökum. Þá vinnur félagið í góðu samstarfi við Krabbameinsfélag Íslands og fær styrki í gegnum Velunnara þess.
Marta Kristín segir að undirbúningur og skipulag fyrir starfsemi félagsins næsta ár séu í fullum gangi og á heimasíðu félagsins, www.kaon.is megi sjá hvað verður í boði í janúar næstkomandi. „Við erum mjög stolt af því starfi sem við bjóðum upp á og við höfum verið að fá mikið af nýjum andlitum að kíkja til okkar á skrifstofuna undafarið,“ segir Marta Kristín en grunnur að góðu og öflugu starfi felist einmitt í því hversu rausnarlegt nærsamfélagið sé gagnvart félaginu.
Marta Kristín Rósudóttir verefnastjóri hjá Kaon.
1,2 milljónir vegna Póstgöngunnar
„Það kom okkur skemmtilega á óvart þegar Einar Skúlason hafði samband við okkur í sumar og kvaðst ætla að ganga gömlu póstleiðina frá Seyðisfirði til Akureyrar og vildi gera það í samstarfi við okkur. Gangan var tæplega 300 km og gekk hann með jólakort í bakpokanum sem hann dreifði á leið sinni,“ segir hún en göngunni lauk Einar í liðinni viku með glæsibragJólakortin í bakpokanum voru hönnuð af Lindu Guðlaugsdóttur listamanni og sýndi kortið útlínur Herðubreiðar. Styrkir sem söfnuðust í kringum gönguna eru um 1.2 milljónir króna og enn hægt að styrkja verkefnið. „Við erum mjög þakklát fyrir þetta framtak hjá Einari þar sem peningurinn mun nýjast vel í starf félagsins og umfjöllunin í tengslum við verkefnið hefur aukið sýnileika félagsins sem skiptir okkur miklu máli,“ segir Marta Kristín.
Kaon fékk talsvert af styrkum í kringum bleikan október eða um 8,5 milljónir króna. „Við erum ótrúlega þakklát öllum þeim sem hafa stutt við bakið á okkur. Það var vissulega mikið um að vera í október en auk þess sem ganga Einars vakti athygli á okkur þá höfum við fengið styrki frá Oddfellow, Norðurorku og KEA svo dæmi séu tekin.“
Frá afhendingu styrks frá Dekurdögum sem haldnir voru í október síðastliðinum
Stuðningur og ráðgjöf skjólstæðingum að kostnaðarlausu
Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis veitir fólki sem hefur greinst með krabbamein og aðstandendum þeirra fjölbreytta þjónustu. Félagið býður upp á stuðning og ráðgjöf í formi viðtala, skjólstæðingum að kostnaðarlausu. Boðið er upp á fræðslu, fjölbreytt námskeið, heilsueflingu, jafningjastuðning í karla- og kvennahópum og ýmsa aðra viðburði. Eirberg er með aðstöðu á skrifstofunni og sér hjúkrunarfræðingur um að aðstoða konur sem hafa farið í fleygskurð eða brjóstnám með ráðleggingar um gervibrjóst, brjóstahaldara og ermar til þess að meðhöndla sogæðabjúg.
Skrifstofa Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis er opin frá kl.10:00-14:00 mánudaga til fimmtudaga. Viðtöl hjá Ráðgjafa og Eirbergsþjónusta er í boði frá kl.09:00-16:00. Frjáls framlög á reikning í eigu Krabbameinsfélags Akureyrar og nágrennis: rn:0302-13-301557 kt:520281-0109