KAON Gjöf til minningar um Aðalbjörgu Hafsteinsdóttur
Krabbameinsfélag Akureyrar og nágrennis fékk á dögunum styrk í minningu Aðalbjörgu Hafsteinsdóttur jóga og líkamsræktarfrömuðar sem lengi starfaði á Akureyri. Hólmfríður Jóhannsdóttir afhenti félaginu upphæðina, 370 þúsund krónur, en hún safnaðist í tengslum við minningartíma um Aðalbjörgu.
Aðalbjörg lést 8. ágúst síðastliðinn eftir langa baráttu við brjóstakrabbamein. Hún var áberandi í bæjarlífinu á Akureyri meðan hún bjó hér en hún var einn af eigendum Líkamsræktarinnar Bjargs ásamt eiginmanni sínum Ólafi Óskarssyni. „Hún var elskuð og dáð af öllum sem til hennar þekktu vegna sérstaklega góðrar nærveru og hvað hún var yndisleg manneskja,“ segir Hólmfríður í nokkrum orðum sem fylgdu gjöfinni.
Eftir að hún greindist með krabbamein og meðan hún bjó hér á Akureyri var hún dugleg að nýta sér það sem krabbameinsfélagið bauð uppá og var afar ánægð með þá þjónustu og hlýlega viðhorfið sem ríkir þar. Því hafi ekki annað komið til greina en að safna fyrir félagið þegar Hólmfríður ákvað að halda minningar- og styrktartíma fyrir dásamlegu vinkonu sína.
Ákveðið hefur verið að nýta fjárhæðina í yoga námskeið fyrir félagsmenn og aðstandendur KAON, allt í anda Aðalbjörgu.