Kanna áhrif kvikmyndaverkefna á ferðaþjónustu
Í júlímánuði stendur yfir rannsóknarvinna í verkefni sem hlaut styrk úr Nýsköpunarsjóði námsmanna, þar sem verið er að leggja viðhorfskönnun fyrir erlenda ferðamenn. Greint er frá þessu á vef Þekkingarnets Þingeyinga.
Þar segir að sumarstarfsmaður Þekkingarnetsins, Zakaria Soualem (Zakki) sem stundar nám í umhverfis- og byggingarverkfræði við Háskóla Íslands vinni að rannsókninni sem snýr meðal annars að því að varpa ljósi á áhrif sviðsmynda kvikmynda og þátta á heimsóknir ferðamanna.
Húsavík og Mývatnssveit eru meðal þeirra staða sem hafa verið notaðir sem tökustaðir alþjóðlegra kvikmynda og þátta, t.d. James Bond, Game of Thrones, Eurovision song contest. Zakki mun á næstunni safna viðmælendum úr hópi erlendra ferðamanna sem notuð verða til rannsóknarinnar.