Káinn á Akureyri

Jón Hjaltason skrifar um Káinn
Jón Hjaltason skrifar um Káinn

Mér dettur ekki í hug eitt augnablik að kalla Matthías Jochumsson, Davíð Stefánsson og Kristján frá Djúpalæk annað en Akureyringa. Þó er það ómótmælanleg staðreynd að enginn þeirra var borinn og barnfæddur á Akureyri.

Og þegar betur er að gáð kemur í ljós sú óvænta staðreynd að í skáldaflóru Íslands er aðeins að finna einn einstakling sem öðlast hefur landsfrægð fyrir kveðskap og er jafnframt fæddur í kaupstaðnum við Pollinn. Sá hét Kristján Níels Jónsson og leit fyrst dagsins ljós í Fjörunni, nánar tiltekið í Aðalstræti 76. Öll þekkjum við hann undir skáldaheitinu, Káinn.

Fleira ætla ég ekki að segja ykkur af Káinn, að minnsta kosti ekki í bili, en ástæða þess að ég set þessi orð á blað er málþing sem fyrirhugað er að halda í ágúst á næsta ári, helgað Káinn. Í áformi er að fá íslenska og erlenda fyrirlesara til að draga upp mynd af skáldinu, ljóðagerð þess og samtíma á Íslandi og í Ameríku, auk þess sem menn munu velta fyrir sér hvaða erindi ljóð hans eiga við nútímann.

Þingið höldum við í samvinnu við Þjóðræknisfélag Íslendinga hérlendis og Þjóðræknisfélags Íslendinga í Vesturheimi sem ætlar af mikilli rausn að gefa bænum afsteypu af minnismerkinu um Káinn sem er þar vestra.

Þessi við, sem mér verður svo tíðrætt um, eru Hólmkell Hreinsson amtsbókavörður, Kristín Margrét Jóhannsdóttir, sem kennir við Háskólann á Akureyri, Kristinn Már Torfason, forstöðumaður og aðalhvatamaður þessa ævintýris okkar, og undirritaður. En því er ég að telja okkur upp að ef þið lumið á einhverju sem varðar Káinn þá endilega hafið samband. Maður veit aldrei hvar fróðleiksmolar kunna að leynast.

Munið svo að taka frá laugardaginn 26. ágúst næstkomandi en þá þingum við um Káinn, skáldið sem fæddist í Fjörunni.

Nýjast