20. nóvember - 27. nóvember - Tbl 47
Kaffið vökvar en mjólk er ógeðsleg
Ég horfði í gærkvöldi á þátt á Rúvinu sem gladdi mig óskaplega mikið. Þetta var heimildaþáttur gerður af BBC þar sem ýmsar mýtur um mataræði voru dauðrotaðar.
Þarna kom svo sem ekki mikið í ljós sem ég vissi ekki áður. Það var til dæmis verið að hrekja staðhæfingar um að bláber væru einhver sérstök ofurfæða. Þarna var sýnt fram á að hinir geysivinsælu „detox“ kúrar gera minna en ekkert gagn og geta meira að segja verið skaðlegir. Og svo var því enn eina ferðina barið inn í kollinn á fólki að fjölvítamín og önnur fæðubótarefni eru vita gagnslaus og hættuleg í einstaka tilfellum. Svo þótti það einnig sannað að egg og beikon er besti morgunverðurinn. Og ég endurtek – Ekkert sem kom á óvart.
Það var þó eitt sem þarna kom fram sem lét mig iða í skinninu eftir því að konan kæmi heim af kvöldvakt. Konan mín hefur nefnilega verið að halda að mér þeim áróðri að ég þurfi að drekka meira vatn en ég geri. Og henni leiðist ekkert að minna mig á það í tíma og ótíma hvað ég drekk lítið af því – spyr mig reglulega þegar ég kem heim úr vinnunni hvort ég hafi drukkið eitthvað vatn yfir daginn. Hún heldur því fram að ég veslist upp og drepist ef ég innbyrði ekki svo og svo mikið af ómenguður H2O yfir daginn. Ég hef alltaf sagt við hana að þetta væri þvættingur. „Ég drekk kaffið mitt,- ég borða það ekki beint upp úr pokanum,“ segi ég við hana og vek um leið athygli hennar á því að það sé vatn í meira og minna öllu sem ég læt ofan í mig. Auk þess sem líkaminn sé fullfær um að láta mig vita þegar þegar það vantar vatn í hann,- það er kallað þorsti!
En hún hefur aldrei gefið sig með þetta og hún er auk þess háskólagengin í heilbrigðisfræðum svo ég verð að viðurkenna að ég var farinn að óttast að hún hefði eitthvað til síns máls. Eeeen, þátturinn í gær var fullnaðarsigur fyrir mig.
Þar var með hávísindalegum aðferðum sýnt fram á að hreint vatn og kaffi gera nákvæmlega sama gagn þegar kemur að því að vökva líkamann. Það kom reyndar fram einnig að besta leiðin til að viðhalda vökvaforða líkamans væri að drekka mjólk en það er atriði sem ég hef engan áhuga á, enda er mjólk ógeðsleg.
Útúrdúr um mjólkurneyslu
Nú er tilhugsunin um mjólk farin að vekja með mér allskonar hugrenningartengsl. Hvernig neysla á kúamjólk virðist vera almennt samþykkt í samfélaginu og jafnvel mælt með henni. Börnum á öllum aldri er uppálagt að drekka sem mesta kúamjólk og svo eru fjölmargir fullorðnir sem slurfa þessu í sig ótilneyddir.
Ungabörn eiga vissulega að fá í sig sem mesta móðurmjólk (af sömu tegund) fyrstu mánuði lífs sín sé þess kostur. Þaðan fá þau næringu, vítamín og allskonar mótefni sem þeim eru nauðsynleg. Í mínum huga er móðurmjólk samt einhverskonar líkamsvessi. Fólk er að vísu sífellt að láta í sig alls kyns líkamsvessa, sérstaklega ef losti er með í spilinu. Fólk skiptist á slefi hvort úr öðru og sleikir upp allskonar löður eins og svita, sæði og náttúrulegt sleipiefni. Svo grettir fólk sig í klígju krampa við tilhugsunina um að fá upp í sig nokkra dropa af volgri mennskri móðurmjólk og ég er þar engin undantekning.
Nú þykist ég viss um að einhverjir ungir nýbakaðir feður þarna úti reyna af veikum mætti að byggja upp einhverja hneykslun yfir þessari fullyrðingu,- segja jafnavel þvuh... upphátt þegar þeir lesa þetta. Það gera þeir af því að í einhverju metró-mikilmennskubrjálæðinu hafa þeir í eitt einasta skipti ráðist á helsára geirvörtu konu sinnar og sogið þar út smá dropa af brjóstaveigunum til þess að ganga í augun á úrvinda smábarnsmóðurinni. Svo reisa þeir sig við með sólblómaglott á vörum og hósta út úr sér hálfkæfðu: „Þetta er ekki svo slæmt.“ Hlaupa svo inn á bað til að bursta í sér tennurnar áður en þeir fá sér kapótínó með kúamjólk.
Þess vegna finnst mér skjóta skökku við að mennsk móðurmjólk vekji yfirleitt upp velgju hjá fólki en svo hleypur það til og þambar mjólk úr skepnu sem drullar á sama stað og hún étur. Þettar er ofar mínum skilningi. Kýr eru auk þess mjög leiðinlegar en ef ekkert annað; þá ætti tilhugsunin um að Guðni Ágústsson hafi mögulega farið í sleik við kýrina sem mjólkin þín kom úr, að sannfæra þig um að drekka kaffið þitt bara svart.
Kúamjólk er ekki mannamatur.
Höfundur borðaði egg og beikon með kaffinu í morgun